Plast í hafinu umhverfis Ísland – Örplast hreinsast illa í íslenskum hreinsistöðum

ruv

Hér má sjá umfjöllun í Landanum

plast hafinu islandi

 

Því var nýlega spáð að árið 2050 yrði orðið meira af plasti en fiski í sjónum. Þessi nöturlega framtíðarsýn hlýtur að fá hvern sem er til þess að staldra svolítið við. Jafnvel velta fyrir sér eigin ábyrgð? Og þó, kannski ekki. Fólki hættir nefnilega til að halda að vandamálin séu stærri og meiri annars staðar. Að aðrir beri meiri ábyrgð á vandanum – og þar af leiðandi lausnunum.

Það hefur reyndar verið sáralítið rannsakað hversu mikið plast er í sjónum umhverfis Ísland. Hrönn Jörundsdóttir, umhverfisefnafræðingur hjá Matís, kemst svo að orði að þarna væri í raun og veru stór eyða í þekkingargrunni okkar Íslendinga. Og ef umfang vandans væri ekki þekkt væri erfitt að bregðast við honum.

Engin landamæri

En jafnvel þótt rannsóknir séu af skornum skammti þarf ekki annað en að ganga um einar afskekktustu strandir landsins, Hornstrandir, til þess að átta sig á því að það er ógrynni og plasti (og raunar annarskonar rusli) í sjónum umhverfis Ísland. Og ruslið í sjónum virðir engin landamæri. Þetta er jú allt sama jörðin og allt sami sjórinn, svona meira eða minna, þegar öllu er á botninn hvolft.

Mynd með færslu

Ruslið í fjörunum á Hornströndum – Mynd RÚV

 Ruslið á Hornströndum virðist koma víða að úr heiminum, ef eitthvað er að marka merkingar á umbúðum, sem sumstaðar má ennþá greina. Sumt er ennþá ótrúlega heillegt eftir að hafa velkst um í sjónum – en verra er að stærra rusl brotnar á endanum niður í smærri einingar og verður að svokölluðu örplasti.

Vísindamenn eru enn að reyna að átta sig á því hversu mikil ógn stafar af veru þess í sjónum en rannsóknir hafa sýnt að það á greiða leið inn í líkama sjávarlífvera. Það er ekki nóg með að þær taki örplastið í misgripum fyrir fæðu svo það endar í meltingarfærum þeirra, heldur hefur það líka fundið sér leið í gegnum blóðrásina út í önnur líffæri. Örplastið fer svo upp fæðukeðjuna og endar í okkar eigin maga. Það eitt og sér er ekki gott, en skaðinn getur verið ennþá meiri vegna þess að plast er þess eðlis að það dregur í sig eiturefni sem verða á vegi þess í hafinu. Og þannig aukast mengungaráhrifin.

Mynd með færslu

Hrönn Jörundsdóttir Matís – Mynd RÚV

Örplast leynist víða

Áðurnefnd Hrönn Jörundsdóttir, starfsmaður Matís, hefur undanfarin ár tekið þátt í samnorrænni rannsókn þar sem skólphreinstistöðvaðar voru kannaðar sem uppspretta örplasts í sjónum – og þar var af nógu að taka. Örplast er gjarnan að finna í snyrtivörum; svo sem tannkremi og líkamsskrúbbi, auk þess sem það verður til þegar fatnaður, t.d. úr flísi er þveginn. Í ljós kom að íslenskar skólphreinsistöðvar náðu alls ekki að hindra för örplasts frá heimilum út í sjó. Finnskar og sænskar stöðvar komu mun betur út.

Landinn snerti á þessu umfangsmikla og aðkallandi máli. Hægt er að horfa á umfjöllunina hér að hofan.

Hér má nálgast nýútkomna skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins um málið.

 

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: