Árborg – „Þurfum meira heitt vatn fyrir fleira fólk“

ruv

borun selfossi

Mynd: arborg.is

Það fjölgar hratt í Árborg og við þurfum að bregðast við því. Afkastageta svæðanna tveggja þar sem við tökum heitt vatn er fullnýtt. Við þurfum að finna nýtt orkuöflunarsvæði. Að bora og koma holu í nothæft stand tekur tíma, svo það er ekki eftir neinu að bíða“, segir Gunnar Egilsson formaður Bæjarráðs í Árborg. Selfossveitur standa nú fyrir tilraunaborunum við Ölfusá.

Selfossveitur hafa sótt heitt vatn á svæði í Þorleifskoti og Laugardælum síðan 1948. Þar fæst nú minna heitt vatn en áður. Frá árinu 2000 hefur heitt vatn einnig verið tekið í landi Stóra Ármóts í Flóahreppi. Tilraunaboranirnar nú eru við Selfoss, á norðurbakka Ölfusár. „Það er verið að skábora þarna í von um að finna vatnsgefandi sprungur. Niðurstöðurnar eru fremur jákvæðar, hvað sem svo verður. Við höfum fengið upp vatn sem er 30 gráður. Nú er að sjá hvort við finnum meira vatn og heitara“, segir Gunnar.

„Misstum niður þrýsting“

Gunnar er jafnframt formaður Framkvæmda og veitunefndar Árborgar. Fyrir nokkru var Sundlauginni á Stokkseyri lokað tímabundið, vegna vandkvæða við að koma þangað nægu heitu vatni. „Það þýðir ekki að við höfum ekki nóg vatn. Við erum núna að endurskipuleggja dreifinguna til að halda betur þrýstingi á leiðinni. Um leið og það er búið er nóg vatn fyrir laugina“, segir Gunnar. Íslenskar Orkurannsóknir eru ráðgjafar Selfossveitna varðandi staðsetningu á borholum og úrvinnslu.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: