Húðun á galvaniseruðum kaldavatnsrörum hafin hérlendis

mbl

Júní 2008

Two broken plumbing pipe almost completely blocked with vibrant orange rust.

Eitt af því hvimleiða sem húseigendur hafa þurft að búa við vítt og breitt um landið er að galvaniseruð kaldavatnsrör hafa ryðgað að innan og þá verður drykkjarvatnið heldur ókræsilegt. Það verður mórautt á litinn, einkum á morgnana eða þegar vatnið hefur verið óhreyft í leiðslunum í nokkra klukkutíma.

Fyrir síðustu aldamót tókst loks að fá nær alla húsbyggjendur og lagnamenn til að hætta að leggja kaldavatnslagnir úr galvaniseruðum rörum. Þá hafði þetta vandamál verið viðvarandi í nokkuð mörg ár. Það sérkennilega er að þetta gerist frekar í nýrri byggingum og nýrri lögnum frekar en þeim eldri. Menn greinir nokkuð á um af hvaða orsökum þessir gallar koma í ljós en þó má fullyrða að með betra og hreinna vatni þoli galvaniseruð rör vatnið ver. Þau rör sem í hafði runnið vatn úr yfirborðslindum var ekki jafn gott vatn til drykkjar og matargerðar, en ákveðin efni í því vatni mynduðu húð innan í rörin. Þegar nýrra vatnið og betra kom í leiðslurnar kom þessi gamla varnarhúð til góða og verndaði rörin.

Það má því búast við, einkum á höfuðborgarsvæðinu, að galvaniseraðar kaldavatnslagnir lagðar á árunum 1980-2000 séu sérlega illa farnar.

En nú hefur fyrirtækið H-gæðalína fengið starfsleyfi frá svissnesku fyrirtæki ásamt tækjum og tólum til að nota þrautreynda aðferð Svisslendinga til að hreinsa og húða skemmdar galvaniseraðar lagnir.

Það var því með nokkurri forvitni að farið var á vettvang þar sem starfsmenn hudun hafin1H-gæðalínu voru með allan sinn mikla tækjabúnað komnir á fullt skrið við að blása ryði úr skemmdum lögnum og húða síðan. Vissulega er þetta mikið inngrip í líf fólks, íbúðir eru undirlagðar einkum eldhús, böð og önnur votrými. Greinilegt var að gengið var um hýbýli manna af varfærni, hvarvetna þar sem um þurfti að fara um voru plastdúkar settir á gólf.

Til að slík húðun komi að fullu gagni verður að hreinsa og húða hvern rörbút, ekkert má verða útundan. Teikning af vatnslagnakerfum er því besti leiðarvísirinn en einnig að grandskoða hvort nokkurs staðar séu botnlangar sem ekki sjást á teikningum eða eru ekki í notkun.

Þetta verkefni starfsmanna H-gæðalínu var í sambýlishúsum sem voru byggð fyrir rúmum áratug, flutt inn í þau fyrir aldamótin. Samt var með ólíkindum að sjá þann hroða sem út úr lögnunum kom, ryð í stampi sýndi það greinilega.

Þó hér sé fjallað fyrst og fremst um galvaniseraðar kaldavatnslagnir er einnig hægt að húða galvaniseraðar heitavatnslagnir þó þær séu ekki svona illa farnar ef um þær hefur runnið óblandað hitaveituvatn. En ef um þær hefur runnið upphitað kalt vatn má búast við að slíkar lagnir séu jafnvel ver farnar en kaldavatnslagnir.

Ef heitavatnslagnirnar eru hreinsaðar og húðaðar opnast ýmsir möguleikar til að lækka hitann á kranavatninu, svo sem með hitastýrðum blöndunartækjum við inntak.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: