Svört skýrsla um Orkuveituna

Rúv

Október 2012

svort skyrsla or

Arðgreiðslur til eigenda Orkuveitunnar voru fjármagnaðar með lánum, segir formaður úttektarnefndar um bága stöðu fyrirtækisins. Borgarfulltrúar eru ósammála um hvort skipta eigi kjörnum fulltrúum út úr stjórn Orkuveitunnar eins og nefndin leggur til.

Formaður nefndarinnar telur skýrslu sem hún kynnti í dag vera áfellisdóm yfir stjórnarháttum í Orkuveitunni. Ástæður fjárhagserfiðleika Orkuveitunnar auk óstjórnar eru að mati nefndarinnar miklar fjárfestingar, háar arðgreiðslur, gengistap og tregða við að hækka gjaldskrár.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, telur niðurstöðuna fyrst og fremst vera að fyrirtækið hafi vaxið um of, allt of hratt á allt of skömmum tíma og verið að vasast í einhverju sem það hefði ekki átt að koma nálægt. Hún hafi alltaf talað fyrir því að Orkuveitan hverfi frá þeirri stefnu og gott sé að það sé staðfest í skýrslunni.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að borgarstjórn verði að tryggja að svona nokkuð gerist ekki aftur. Það hafi verið reynt með þeim aðgerðum sem meirihlutinn hafi gripið til á þessu kjörtímabili.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi vinstri grænna, segir að skýrslan sé 600 blaðsíðna rökstuðningur með því að stóriðjustefnan sé úr sér gengin.

Í skýrslunni er einnig fjallað um arðgreiðslur til eigenda Orkuveitunnar. Margrét Pétursdóttir, formaður úttektarnefndarinnar telur sérstakt að á sama tíma og fyrirtækið hafi staðið í dýrum framkvæmdum hafi eigendurnir greitt sér mikinn arð. Um leið hafi fyrirtækið verið fjármagnað í erlendri mynt. Því megi segja að arðgreiðslur eigenda hafi verið fjármagnaðar í erlendri mynt og að fjármagnskostnaður eigenda hafi þar með verið fluttur yfir á fyrirtækið. Skilja megi það svo að lán hafi verið tekin fyrir arðgreiðslunum.

Nefndin telur ekki eðlilegt að sveitarstjórnarmenn sitji í stjórn Orkuveitunnar. Kröftum sveitarstjórnarmanna sé betur varið á öðrum vettvangi. Í stjórn Orkuveitunnar þurfi fólk sem sitji þar um langa hríð og hafi tíma til að kynna sér fyrirtækið og rekstur þess sem sé gríðarlega flókinn.

Dagur B. Eggertsson er sammála nefndinni og segist binda vonir við að það verði niðurstaðan að kjörnir fulltrúar sitji ekki í stjórninni. Jón Gnarr borgarstjóri tekur í sama streng. Hanna Birna Kristjánsdóttir telur að þetta verði að ræða en henni finnst einnig koma fram í skýrslunni að stjórnendur fyrirtækisins hafi farið mjög mikinn.

Sóley Tómasdóttir er hins vegar allskostar ósammála skoðun nefndarinnar. Hún segir að sér sé fyrirmunað að skilja hvernig úttektarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að sveitarstjórnarmenn eigi ekki að sitja í stjórn Orkuveitunnar. Nefndin tali um að ákvarðanir hafi verið teknar að illa ígrunduðu máli og hafi jafnvel ekki verið bornar undir stjórn og að stjórnin hafi ekki gegnt nægilega veigamiklu eftirlitshlutverki. Sóley segist ekki skilja hvernig lausnin á þeim vanda eigi að felast í því að klippa á lýðræðið og taka út úr stjórninni þá einstaklinga sem kjörnir séu til að gæta hagsmuna borgarbúa.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: