Bruni í 300 metra háa Address Downtown hóteli í Dubai

Rúv

Address Downtown

Address Downtown Hotel Mynd: EPA

Svo virðist sem betur hafi farið en á horfðist þegar stórbruni varð í hinu 63 hæða og 300 metra háa Address Downtown hóteli í Dubai í kvöld. Mikill eldur logaði á tugum hæða skýjakljúfsins þegar mest var en hundruð gesta og starfsmanna komust nokkurn veginn ósködduð út úr honum áður en eldurinn náði fullum styrk. 16 eru sagðir hafa slasast en enginn þeirra alvarlega.

Einn fékk þó hjartaáfall í látunum, en mikill troðningur myndaðist við rýmingu hótelsins og talsverð skelfing greip um sig. Slökkvilið mun hafa náð að hemja eldinn, og fullyrt er að hann hafi verið að mestu bundinn við ytra byrði hótelsins. Address Downtown hótelið er spölkorn frá hæstu byggingu heims, Burj Khalifa-hótelturninum.

Við Burj Khalifa-turninn fer fram gríðarmikil flugeldasýning á áramótum, sem þúsundir safnast saman til að fylgjast með. Eldurinn í Address Downtown-hótelinu blossaði upp um sexleytið að staðartíma og ekki var búið að slökkva hann að fullu um miðnætti. Flugeldasýningin fór fram á miðnætti engu að síður, samkvæmt áætlun.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: