Mikilvæg skilaboð Landsvirkjunar til þjóðarinnar

Orkubloggið

ketill sigurjónson 1

Ketill Sigurjónson

Raforkusamningar Landsvirkjunar eru meðal stærstu samninga sem gerðir eru í íslensku viðskiptalífi. Mótaðilar eru öflug alþjóðleg fyrirtæki sem gæta hagsmuna sinna af mikilli festu. Bæði við gerð fyrstu samninga og ekki síður þegar kemur til endursamninga, oft eftir 10 ár eða þegar til stækkana verksmiðja kemur. Verðmæti samninganna er gríðarlegt og getur numið 500-600 milljörðum króna á 10 ára tímabili. Samanlagt verðmæti þeirra er því sambærilegt við samninga við kröfuhafa föllnu viðskiptabankanna þriggja.

Kvislaveita- Hofsjokull-1Ofangreindur texti er úr fréttatilkynningu sem birtist á vef Landsvirkjunar í gær. Fyllsta ástæða er til að vekja sérstaka athygli lesenda – og Íslendinga allra – á þessum hluta fréttatilkynningarinnar. Þarna er nefnilega vikið að þeim geysilegu hagsmunum sem felast í raforkusamningum Landsvirkjunar – og alltof fáir landsmenn virðast gera sér grein fyrir.

Það er svo líka eftirtektarvert að í umræddri tilkynningu Landsvirkjunar er sérstaklega vakin athygli a því, að fyrirtækið eigi nú í viðræðum „um nýjan raforkusamning við Norðurál, sem er í eigu bandaríska fyrirtækisins Century Aluminum, en núverandi samningur rennur út árið 2019.“ Þarna er meðvitað eða ómeðvitað verið að minna lesendur á, að þegar þeir kunna að lesa skrif sem beinast gegn verðstefnu Landsvirkjunar er mikilvægt að lesendur hafi í huga hverjir standa á bakvið slík skrif. Og að þar kunni hagsmunir Norðuráls og Century að vera drifkraftur þess að reyna að tala raforkuverðið niður. Slík skrif þjóna fyrst og fremst hagsmunum erlendra stóriðjufyrirtækja.

Straumsvik-Aluminum-Smelter-Skyes-IcelandFyrsta stóriðjuverið sem reis á Íslandi var álver Alusuisse í Straumsvík; nú í eigu Rio Tinto Alcan. Síðan þá hefur álverið verið stækkað mikið og að auki hafa risið álver í Hvalfirði og við Reyðarfjörð, sem eru nú í eigu Century Aluminum og Alcoa.

Til að afla raforku fyrir þessi fyrirtæki hafa verið reistar fjölmargar stórar virkjanir hér á Íslandi, með tilheyrandi mikilli skuldsetningu orkufyrirtækja í opinberri eigu. Þeim virkjana- og veituframkvæmdum hafa fylgt margvísleg og umfangsmikil náttúruspjöll sem óhjákvæmilega fylgja slíkum framkvæmdum.

Við þær aðstæður sem ríktu þegar álverin voru reist þurfti að bjóða raforkuna afar ódýrt. Við endurnýjun raforkusamninga í nútímanum eru aðstæðurnar talsvert mikið breyttar. Án þess að rekja það sérstaklega hér, má minna á að fyrir um fimm árum kom til endurnýjunar á einum af þessum risastóru raforkusölusamningum. Sem var samningur Landsvirkjunar við álverið í Straumsvík. Þar náðist fram veruleg og mikilvæg hækkun a raforkuverðinu.

Bæði Landsvirkjun og Rio Tinto Alcan á Íslandi lýstu mikilli ánægju með þennan nýja samning. Ummæli forstjórans í Straumsvík þá voru eftirfarandi„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir álverið. Bæði framlengingin á núverandi orkukaupum og ákvæðin um viðbótarorku renna sterkari stoðum undir framtíð okkar,“ segir Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi.

Samskonar ummæli voru svo látin falla við endurskoðun á orkusamningi samningsaðilanna, sem átti sér stað fyrir einungis ári síðan. Þá var haft eftir Rannveigu Rist, forstjóra Straumsvíkurversins: „Samkomulagið við Landsvirkjun er enn ein staðfesting þess að viðskiptasamband áliðnaðar og orkuframleiðslu á Íslandi einkennist af gagnkvæmri virðingu og gagnkvæmum ávinningi.“ Allt tal um að Landsvirkjun hafi þarna náð að þvinga einhverjum ósanngjörnum raforkusamningi upp á RTA er því auðvitað bara fáránlegt.

Grundartangi_storidjaHér í upphafi var vikið að því hversu geysilegir hagsmunir felast í endurnýjun raforkusamninga við álfyrirtækin. Nú er senn að renna út raforkusamningur Century Aluminum (vegna Norðuráls) við Landsvirkjun. Þegar samanburður er gerður á orkuverðinu skv. gamla samningnum (sem er frá 1999 og gildir til 2019) og því verði sem eðlilegt er að samið yrði um í nýjum orkusamningi, má gera ráð fyrir að bara verðmismunurinn nemi að lágmarki nálægt 25 milljónum USD árlega (þá er miðað við að eðlilegt sé að verðið skv. nýjum samningi yrði nálægt 35 USD/MWst).

Þarna er því tekist á um miklar fjárhæðir. Miðað við t.d. tíu ára samningstíma er umræddur mismunur á gamla orkuverðinu og líklegu nýju orkuverði að lágmarki nálægt 250 milljónum USD. Það merkir að hagsmunirnir sem bara felast í þessum mismun – og tekist er á um í samningaviðræðum Landsvirkjunar og Century – eru á bilinu 30-35 milljarðar ISK.

Miðað við tíu ára samningstíma má því segja að þarna sé tekist á um það hversu stór hluti þessara u.þ.b. 30-35 milljarða ISK renni til Landsvirkjunar – eða sparist Norðuráli ef Century Aluminum næði að landa raforkusamningi á lægra verði en telja má eðlilegt. Þarna er í reynd um að ræða auðlindaarðinn af þeim orkuauðlindum Íslands sem hafa verið virkjaðar vegna Century Aluminum.

Í þessu ljósi er athyglisvert hvernig nú, þegar viðræður Norðuráls og Landsvirkjunar eru í fullum gangi, hafa sprottið fram fótgönguliðar sem ítrekað reyna að tala niður verðstefnu Landsvirkjunar. Þarna er bersýnilega um að ræða áróður sem ætlað er að styrkja hugmyndir Norðuráls um áframhaldandi botnverð á raforku.

Rétt er að vekja athygli á því að Century Aluminum var nýverið að hætta við framleiðslusamdrátt í álveri sínu í Sebree í Bandaríkjunum, þrátt fyrir mjög lágt álverð nú um stundir. Þar er Century að greiða raforkuverð sem er jafnvel hærra en orkuverðið sem Straumsvík greiðir (og skv. Platts er Century að greiðanálægt 50 USD/MWst í alveri sínu í Mt. Holly þar vestra). Það væri því varla eðlilegt að álveri Norðuráls byðist endurnýjaður orkusamningur nema á verði sem er nálægt eða rúmlega 35 USD/MWst.

Ragnar-Gudmundsson-Nordural-forstjori-2

Century er aftur á móti orðið góðu vant í Hvalfirðinum. Undanfarið hefur raforkuverðið til Norðuráls verið vel undir 20 USD/MWst (flutningskostnaður er þá tekinn með). Eðlilega langar fyrirtækinu að reyna að tryggja sér áfram ofsagróða með gamla orkuverðinu. En þannig gerast ekki kaupin á eyrinni við endurnýjun raforkusamninga við stóriðju í nútímanum. Þess vegna eru leigupennar Norðuráls bæði gagnslausir og hlægilegir – og kannski tímabært að stjórnendur Norðuráls taki sig saman í andlitinu og einbeiti sér að alvöru samningaviðræðum fremur en áróðri.

Sú atburðarás sem hér er minnst á, er rakin með nokkuð skilmerkilegum hætti í grein sem Þórður Snær Júlíusson ritaði á vef Kjarnans i gær. Þar segir m.a. að það átti „sig kannski ekki allir á því en um þessar mundir stendur yfir gríðarlega hörð barátta um afnot að sjálfbærum orkuauðlindum íslensku þjóðarinnar.“ Þarna hittir Þórður Snær naglann á höfuðið. Og mikilvægt að bæði íslenskir stjórnmálamenn og almenningur átti sig á þeirri lágkúrulegu aðferðafræði sem Norðurál hefur stundað hér í fjölmiðlum allt frá því snemma s.l. sumar.

Audlindir-okkar-arodur-fyrir-alver-og-storidjuSérstaklega er mikilvægt að almenningur láti ekki glepjast af dellumálflutningi fótgönguliða Norðuráls, svo sem rugli þeirra um að Landsvirkjun sé að setja óeðlileg hátt verð á raforkuna. Þegar litið er til hinna ýmsu nýju orkusölusamninga sem hér hafa verið gerðir síðustu fimm árin eða svo, er nokkuð augljóst að það verð sem Landsvirkjun hefur verið að bjóða er kaupendum prýðilega hagstætt. Enda er sennilega hvergi í hinum vestræna heimi unnt fyrir orkukaupendur að fá ámóta góða langtímasamninga um raforku eins og hér á landi.

Og þarna er Landsvirkjun ekki aldeilis eina íslenska orkufyrirtækið sem nýtir sér þau tækifæri sem þróun raforkumarkaðarins hefur skapað. Í því sambandi má minna á að ON gerði nýverið raforkusölusamning þar sem verðið var sagt vera að nálgast um 43 USD/MWst. Sem er einmitt sama verð eins og almenna verðið sem Landsvirkjun auglýsir. Og þetta verð, 43 USD/MWst, er vel að merkja án flutningskostnaðar.

Það er því augljóst að 43 USD/MWst er það verð sem orkufyrirtæki á Íslandi geta nú vænst og miðað við að ná í nýjum raforkusölusamningum (samningum þar sem verðið er fest til nokkurra ára). Þess vegna er verðhugmynd Orkubloggarans um að eðlilegt sé að Norðurál fái endurnýjaðan raforkusamning á u.þ.b. 35 USD/MWst jafnvel of lágt verð – ef eitthvað er. Það væri a.m.k. alls ekki of hátt verð, enda mjög ámóta eins og mörg álver eru að greiða í nágrannalöndum okkar. Þetta hljóta stjórnendur Norðuráls að skilja – og ættu að láta af þeim fáránlega áróðursfarsa sem þeir hafa stundað hér síðasta hálfa árið.

Í ljósi þess magns sem Norðurál myndi kaupa skv. nýjum orkusamningi ætla ég ekki að fara að tala fyrir 43 USD/MWst – heldur álít sanngjarnt að þarna fái Norðurál (Century) verulegan magnafslátt. Þannig að orkuverðið í upphafi nýs samnings yrði um eða rétt yfir 35 USD/MWst – og þá er meira að segja flutningskostnaðurinn innifalinn í verðinu! Þar með yrði sjálft raforkuverðið til Norðuráls einungis um 29-30 USD/MWst (því flutningskostnaðurinn er hátt í 6 USD).

Ef Norðurál á kost á að endurnýja raforkusamning sinn við Landsvirkjun á þessum nótum er ekkert vit í öðru fyrir fyrirtækið en að handsala slíkan samning og það fyrr en seinna. Núverandi orkusamningur rennur út 2019 og því hlýtur Landsvirkjun brátt að verða að snúa sér að öðrum álitlegum kaupendum – ef Norðurál heldur áfram dellunni sem virðist hafa verið allsráðandi hjá stjórnendum fyrirtækisins síðustu misserin.

 

Heimild: Orkubloggið

Fleira áhugavert: