Miklar rannsóknir og boranir í gangi

mbl

Október 2003

 

Hágöngulón2

Hágöngulón – Smella á mynd til að stækka

Jarðboranir hf. hafa lokið borun rannsóknarholu í Hágöngum, en Landsvirkjun áformar að reisa orkuver á svæðinu. Unnið er að ýmsum öðrum jarðhitarannsóknum á landinu, en fjallað var um ýmis verkefni á þessu sviði á ráðstefnu Jarðhitafélags Íslands um fjölnýtingu jarðhita og mikilvægi hennar víða um heim.

HITAVEITA Suðurnesja hf. (HS) er að undirbúa virkjun háhitasvæðisins á Reykjanesi vegna hugsanlegrar orkusölu til Norðuráls vegna stækkunar álversins á Grundartanga. Nokkrar holur hafa verið boraðar vegna þessa og verið er að rannsaka afkastagetu þeirra.Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS, segir að þetta undirbúningsstarf beri hæst hjá fyrirtækinu. Auk þess séu í gangi umfangsmiklar efnafræðirannsóknir á vökvanum til að finna leiðir til að nýta hann og HS sé þátttakandi í íslenska djúpborunarverkefninu.

Trölladyngja

Trölladyngja – Smella á mynd til að stækka

 

Í Trölladyngju austan við Svartsengi er rannsóknarsvæði. HS er þátttakandi í fyrirtækinu Jarðlind ehf. sem boraði þar rannsóknarholu í hittiðfyrra. Að sögn Alberts hefur fengist leyfi frá Skipulagsstofnun til að bora aðra holu skammt frá. „Síðan höfum við í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur óskað eftir rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum og er það til umsagnar í iðnaðarráðuneytinu,“ segir hann.

Í útjaðri Trölladyngjusvæðisins er Krísuvík, en fyrir nokkrum árum var þar boruð hola, sem sér Krísuvíkurskólanum fyrir varma. Albert segir að það svæði bíði rannsóknar og áætlanir séu fyrir hendi en ákvörðun um framhaldið hafi ekki verið tekin.

Hengillinn

Hengillinn – Smella á mynd til að stækka

Uppbygging á Hengilssvæðinu

Mikil uppbygging á sér stað hjá Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu um þessar mundir. Níunda rannsóknarholan var boruð þar í sumar og þar af hafa sjö verið boraðar á nýliðnum þremur árum. Eiríkur Bragason, staðarverkfræðingur Hellisheiðarvirkjunar, segir að þær hafi allar heppnast mjög vel og séu meðaltalsholur eða þaðan af betri. Þetta séu rannsóknarborholur en þær hafi gefið mikla orku og séu því einnig vel nýtanlegar sem vinnsluholur. Þess vegna sé komin nægjanleg orka fyrir fyrsta áfanga virkjunarinnar.Á næstunni verði lögð fram mikil skýrsla um umhverfismat til Skipulagsstofnunar. Hún byggist á frumhönnun sem sé þar með nánast lokið og þá hefjist næsti áfangi. Stefnt sé að því að bjóða út vélasamstæður um áramót og hefja síðan einhverjar framkvæmdir á næsta ári með það í huga að gangsetja virkjunina 2006. Um verður að ræða 120 megavatta (MW) raforkuver og 400 MW varmaorkuver, sem verður skipt niður í þrjá jafna áfanga, en fyrsti áfanginn verður tekinn í notkun árið 2006.

Borinn Jötunn byrjar á næstunni borun á Nesjavöllum, en þar stendur til að setja niður fjórðu vélina, sem verður 30 MW, og þar með verður Nesjavallavirkjun 120 MW árið 2005.

Stækkanir hjá Landsvirkjun

Hágöngulón1

Hágöngulón – Smella á mynd til að stækka

Jarðboranir hafa lokið borun rannsóknarholu fyrir Landsvirkjun í Hágöngum, sem eru um 40 km norðaustur af Þórisvatni, og er gert ráð fyrir að fyrstu niðurstöður liggi fyrir síðar á árinu en þá verður ákveðið með framhaldið, að sögn Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, en hugmyndin er að byggja jarðhitavirkjun á bakka vatnsaflslónsins.Í athugun er að bora holu í Leirhnjúkshrauni vestan við Kröfluvirkjun á næsta ári, en Landsvirkjun hefur leyfi til þess að stækka Kröfluvirkjun um 40 MW, fara úr 60 í 100 MW. Landsvirkjun er jafnframt með áform um 40 MW virkjun við Bjarnarflag og er verið að vinna umhverfismat fyrir hana, en það liggur væntanlega fyrir innan skamms.

Tilraunaboranir hafa staðið yfir að Þeistareykjum í Suður-Þingeyjarsýslu. Félagið Þeistareykir ehf., sem er í eigu hreppanna sem eiga landið, Orkuveitu Húsavíkur og Norðurorku, hefur borað þar eina rannsóknarholu með góðum árangri, en til stendur að bora fljótlega eina til tvær holur til viðbótar. Þá hefur verið boruð djúp rannsóknarhola í Öxarfirði.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að rannsóknum og tilraunaborunum vegna staðsetningar á annarri vinnsluholu fyrir heitt vatn á Eskifirði, en til stendur að bora nýja holu fyrir áramót.

Tilraunir með boranir eftir heitu vatni í Grímsey hófust í sumar og er framhaldið í skoðun.

Auk þess hafa nýlega farið fram ýmsar boranir fyrir sumarbústaði eins og t.d. í Grímsnesi og Munaðarnesi.

 

Heimild: Mbl

 

Fleira áhugavert: