Sæstrengur gæti valdið byltingu í raforkusölu

háskóli íslands

Elizabeth Anne Unger

Elizabeth Anne Unger

„Hugmyndin um sæstreng sem flytur raforku frá Íslandi til markaða á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu kitlaði mig,“ segir Elizabeth Anne Unger, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. „Sæstrengur mundi valda gríðarlegum breytingum á íslenskum raforkumarkaði og þau áhrif þarf að rannsaka.“

Lega landsins hefur til þessa komið í veg fyrir að Ísland tæki þátt í að kaupa og selja rafmagn á samkeppnismörkuðum. „Í dag er slíkt mögulegt vegna tækniframfara í gerð neðansjávarkapla fyrir rafmagn þannig að um gríðarlega breytingu gæti verið að ræða fyrir íslenskan raforkumarkað og atvinnuvegina. Það er ekki lengur sjálfgefið að nýta alla umframorku til stóriðju,“ segir Elizabeth.

Verkefnið er styrkt af Umhverfis- og orkurannsóknarsjóði Orkuveitu Reykjavíkur og gengur út á gerð líkans sem metur áhrif út- og innflutnings á rafmagni um neðansjávarkapal á hagkerfi Íslands. Að sögn Elizabeth eru markmið verkefnisins þríþætt: „Í fyrsta lagi þarf að meta hversu mikla orku sé hægt að framleiða. Í öðru lagi þarf að meta hversu mikið rafmagn sé hægt að selja frá landinu miðað við núverandi orkunotkun og í þriðja lagi þarf að kynna sér verslunarhöft og annað regluverk sem hugsanlega getur komið í veg fyrir orkusölu frá Íslandi.“

Niðurstöðum verkefnisins er ætlað að veita almenningi, kjörnum fulltrúum og stjórnendum orkufyrirtækjanna haldgóðar upplýsingar sem nýtast við ákvarðanatöku um mögulega framtíð slíkra raforkuflutninga.

 

Heimild: Háskóli Íslands

 

Fleira áhugavert: