Viðvarandi fráveitumengun allan ársins hring á Akureyri

Akureyri.net

Júní 2015

 

Akureyri 1

„Við tókum þetta mjög alvarlega og sigldum með krakkana burt í fjöruferðir eftir að viðvörunin kom fram,“ segir Rúnar Þór Björnsson hjá Siglingaklúbbnum Nökkva á Akureyri. Í sjónum við siglingasvæði klúbbsins mældist á dögunum tímabundið 800 sinnum meiri kólígerlamengun en lög leyfa án þess að klúbburinn hefði sjálfur með starfsemi sinni nokkuð til sakar unnið. Fréttablaðið sagði fyrst frá og vitnaði til opinberrar tilkynnningar sem birtist á vef Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Bæjarstjóri svarar hér á eftir gagnrýni á fráveitumál bæjarins í úttekt Akureyrar vikublaðs.

Fyrrnefnt fréttamálið sem vakti landsathygli og tengist menguninni við athafnasvæði Nökkva hefur verið skýrt með efnisflutningum og eða dýpkunarframkvæmdum. Virðist vandinn nú úr sögunni, a.m.k. tímabundið. Mengunin hefur aftur á móti reynst áminning um að fráveitumál eru ekki sem skyldi í hinu bjarta norðri. Oft hefur Akureyri vikublað fjallað um bresti í fráveitumálum bæjarins sem e.t.v. má setja í nýtt samhengi nú. Á sama tíma og Lonely Planet útnefnir Akureyri sem áhugaverðasta ferðamannastað heimsins segir heilbrigðisfulltrúi það löst á stjórnsýslu bæði innanbæjar og víða um land að fráveitumálum sé ekki kippt í lag. Einhverra hluta vegna hafa framkvæmdir sem tengjast fráveitumálum hvorki verið efst á óskalista sveitarstjórnarpólitíkusa né hins almenna íbúa hér á landi. Reykvíkingar hafa þó gert átak í sínum málum og mætti nefna fleiri sveitarfélög líkt og Blönduós og Dalvíkurbyggð.

Þessir kappar eiga betra skilið en að þurfa að hafa áhyggjur af saurmenguðum sjó. Mynd: Völundur

Þessir kappar eiga betra skilið en að þurfa að hafa áhyggjur af saurmenguðum sjó. Mynd: Völundur

Krakkar í „helvítis sulli“

Rúnar Þór hjá Siglingaklúbbnum Nökkva segir: „Ég er búinn að vera hér lengi með starfsemi, var fyrst árið 1985 með seglbrettaleigu, þá vorum við bara ofan á klóakinu en ekkert rætt um það. Nú erum við komin með Evrópuviðmið. Auðvitað vill maður að við sjáum sóma okkar í að koma þessu endanlega í lag, fá framtíðarúrbætur. Ég hefði viljað nú þegar að við værum búin að fá aðstöðu á nýja svæðinu. Við ætlum ekki að láta krakkanna sem sigla hjá okkur sitja í einhverju helvítis sulli að óþörfu. Það er krafa að þessi mál komist í lag. Við kostum menningarhús fyrir milljarða og það þarf þá líka að finna pening til að koma þessum málum í lag, fá nýja hreinsistöð.“

Siglingaklúbburinn Nökkvi rekur öfluga siglinga- og sjósportmiðstöð á Pollinum á Akureyri. Aðaláhersla klúbbsins er kennsla á seglbáta, kayaka og seglbretti. Í maí í fyrra var gerður uppbyggingarsamningur um framtíðarskipan siglingaklúbbsins Nökkva við Pollinn á skrifstofu bæjarstjóra. Samningurinn er til 5 ára og veitir klúbbnum möguleika á að hefja mikla uppbyggingu næstu árin. Þar má nefna uppfyllinguna sjálfa og frágang, endurgerð Höepfnersbryggju ásamt kaupum á flotbryggjueiningum og svo byggingu bátageymslu og viðgerðaraðstöðu á nýju uppfyllingunni. Einn viðmælenda blaðsins kallaði það kaldhæðni örlaganna ef saurkólímengunin sem mældist á dögunum á athafnasvæði klúbbsins mætti rekja til framkvæmdanna, en mestu máli skipti að aðeins virtist „um tímabundið skot að ræða, tengt efnisflutningum eða dýpkunarframkvæmdum“.

mengunAfleitar niðurstöður

Í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra sagði um miðjan mánuð undir fyrirsögninni „Afleitar niðurstöður úr sjósýni við siglingaklúbb Nökkva“ um mælingu sem gerð var 8. júní sl.: „Sunnan við uppfyllingu mældust 23 saurkólíbakteríur í 100 ml af sjó en í víkinni við flotbryggjur mældust 79.000 saurkólíbakteríur í 100 ml. Viðmiðunarmörk eru 100 saurkólíbakteríur í 100 ml af sjó þar sem útivistarsvæði eru í grennd, samkvæmt reglugerð nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns. Það er því ljóst að ástand sjávar við flotbryggjur Nökkva hefur verið algerlega ófullnægjandi m.t.t. útivistar í vikunni sem er að líða. HNE beinir þeim tilmælum til forsvarsmanna Siglingaklúbbsins Nökkva og almennings að forðast sjóböð og busl í víkinni þar til niðurstöður liggja fyrir um annað.“

Alfreð Schiöth, heilbrigðisfulltrúi hjá HNE, segir í samtali við Akureyri vikublað að dýpkunarframkvæmdir og setflutningar kunni að hafa skýrt þetta mikla mengunarskot sem litið er mjög alvarlegum augum. Heilbrigðiseftirlitsstarfsmenn hafi um leið og niðurstaða lá fyrir rætt við forsvarsmenn Norðurorku sem nýverið tók við fráveitumálum á Akureyri. „Í gegnum tíðina höfum stundum séð há mengunargildi, einkum að vetrarlagi þegar kuldi og aðrar aðstæður auka styrk gerlanna, stundum hefur verið í járnum að þetta sleppi upp á sumarstarf Nökkva og þess vegna reynum við að mæla og sjá til þess að börnin séu ekki að busla í saurkólímenguðum sjó.“

Rangtenging í Naustahverfi?

Heilt yfir segir Alfreð óvíst enn hvaða lærdóm sé hægt að draga af þessari uppákomu. Spurður um fráveitumál bæjarins heilt yfir segir hann vitað um a.m.k. einn ágalla í fráveitukerfi Akureyrarbæjar. „Það er líklegt að einhver rangtenging uppi í Naustahverfi leiði til þess að skólp berist í ofanvatnskerfi og óþægilega nærri Nökkvasvæðinu. Svo gerist það einstaka sinnum í mikilli rigningu eða leysingum að það skapast yfirfall í skólpkerfi bæjarins.“

Of stutt útrás stærsti vandinn

Stærsti vandi fráveitumála bæjarins er að sögn Alfreðs Schiöth heilbrigðisfulltrúa að rör eða svokölluð útrás norðan við Sandgerðisbót er ekki fullgert. Áformað er að rásin fari 400-500 metra út á sjó en nú sé lögnin aðeins um 90 metra löng sem þýði að skólp leiti eftir strandlengju Akureyrar. Þar starfa m.a. öflug matvælafyrirtæki. „Það einfaldlega gengur ekki að hafa hlutina svona. Þetta svæði er viðvarandi mengað saurkóligerlum vegna þess að aðalútrás Akureyrarbæjar er of stutt. Það er afar brýnt að klára þessar framkvæmdir, fara með rásina út á 40 metra dýpi. Búið er að reikna að þá tækju sjávarstraumar skólpið og myndu dreifa því þannig að það færi ekki fari yfir viðmiðunarmörk,“ segir heilbrigðisfulltrúi.

Spillir ímynd bæjarins

Hann segir að bæjaryfirvöld hafi veigrað sér við að leggja í þessa framkvæmd vegna kostnaðar. Bærinn hefði átt að hafa klárað þessi mál fyrir heilum áratug í síðasta lagi. „Þetta hefur verið mjög óþægilegur dráttur og spillir ímynd Akureyrarbæjar fyrir íbúa, sem ferðamannastaðar, spillir smábátahöfninni, því þar er oft uppskipun á fiski, spillir ímynd matvælafyrirtækja sem standa þarna sunnan við. Börn eru líka að busla þarna í fjörum oft og það er mjög óþægilegt að vita af þessari skólpmengun. Við sjáum stundum á vetrum að þetta skólp dreifir úr sér út um allt, þarna verður stundum til mjög mengandi svæði, það er brýnt fyrir Akuryrarbæ að ljúka þessum framkvæmdum með útrásina, koma því þannig fyrir að þessu vonda ástandi verði aflétt.“

Aflreð Schiöth ræðir einnig að gert sé ráð fyrir skólphreinsistöð á landfyllingu við Sandgerðisbót. „Það er margt gott að gerast hjá Norðurorku, en engir stórir sigrar munu vinnast þangað til farið verður lengra út með útrásina og gera skólphreinsistöð. Þá myndi ástandið í fjörunni og Sandgerðisbótinni gjörbreytast. Þetta svæði er núna viðvarandi mengað allan ársins hring og það er mjög vont ástand.“

Úrbætur kosta 750 millur

Akureyri vikublað ræddi við bæjarstjóra Eirík Björn Björgvinssonar vegna málsins og sendi ýmsar fyrirspurnir vegna álitamála sem upp hafa komið. Ein spurningin er: Hvað myndi ný skólphreinsistöð og 500 metra lögn eða útrás út við Sandgerðisbót kosta? Í svari bæjarstjóra við þeirri spurningu blaðsins segir: „Norðurorka vinnur um þessar mundir að undirbúningi á hönnun hreinsistöðvar fráveitu sem fyrir allnokkru síðan hefur verið ákveðið að rísi við Sandgerðisbót. Langt er síðan hreinsistöðin var sett á framkvæmdaáætlun. Gert er ráð fyrir að hönnun stöðvarinnar ljúki á þessu ári og framkvæmdir við nýja stöð verði boðnar út á næsta ári. Stefnt er að því að hreinsistöðin verði tekin í notkun á árinu 2018 en mögulega í loka árs 2017. Sú frumhönnun sem nú liggur fyrir gerir ráð fyrir að heildarkostnaður við hreinsistöð og útrás sé um 750 milljónir króna en nákvæmari fjárhæð mun liggja fyrir þegar hönnun er lokið.“

Fagnar tillögum til úrbóta

Spurður hvort verjandi sé að bærinn dragi lappirnar í fráveitumálum og uppfylli í raun ekki skylduviðmið um frárennslismál, með vísun til ummæla heilbrigðisfulltrúa, segir bæjarstjóri: „Samstarf okkar við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur alltaf verið með ágætum og við fögnum öllum tillögum þeirra til úrbóta. Mælingar á mengun af völdum ýmissa þátta, þ.á m. saurkóligerla, geta verið breytilegar frá degi til dags. Mælingin sem gerð var sýndi afleitar niðurstöður af einhverjum orsökum en þremur dögum seinna var gerð mæling á sama stað sem sýndi mengun vel undir viðmiðunarmörkum. Næstu mælingar verða gerðar fljótlega og þá kemur í ljós hvort ástandið sé viðunandi og hvort um skammtímaáhrif hafi verið að ræða.“

Tenging hins gamla og nýja hefur tafið

Framkvæmdaáætlun í fráveitumálum hefur verið í undirbúningi hjá tæknideild og síðar framkvæmdadeild Akureyrarbæjar í rúma tvo áratugi. Markmiðið er að uppfylla öll skilyrði mengunarvarnarreglugerðar. Bæjarstjórn samþykkti tillögu um skipulag fráveitukerfisins 1993. Síðan hafi verið unnið markvisst að því skipulagi, segir bæjarstjóri. „Til frekari útskýringar er rétt að taka fram að fráveitukerfið er að mestu leyti tvöfalt, þ.e.a.s. annars vegar skólpkerfi og hins vegar regnvatnskerfi. Nú þegar er búið er að ná öllu skólpi á einn stað, þ.e.a.s. við Sandgerðisbót. Gamlar útrásir hafa verið aflagðar og fráveitunni safnað saman með þrýstilögnum og dælustöðvum auk yfirfalla. Yfirföllin virka þannig að þegar mikið álag er á kerfið (s.s. við asahláku) fer hluti af fráveituvatninu útþynnt í sjó fram eins og heimilt er í reglugerð. Þetta á við þar sem hluti kerfisins er ennþá einfaldur (skólp og regnvatn í sömu lögn). Við erum því meðfram öðru að vinna að því að endurbæta og laga eldri kerfi í elstu hverfum bæjarins og aðlaga þau að nýju fráveitukerfi. Tengingar elsta hluta bæjarins við nýrri kerfi er því einnig að vissu leyti hluti af því sem tafið hefur framgang áætlunar Akureyrarbæjar í fráveitumálum.“

Hrunið hafði áhrif

Bæjarstjóri segir að árið 2008 hafi náðst sá áfangi að allt skólp fór um útrásina við Sandgerðisbót að Krossanesi undanskildu. Núverandi útrás sem sé 90 metra löng sé notuð til bráðabirgða, en verði síðan í fullgerðu kerfi svokölluð neyðarútrás. „Undirbúningur var hafinn árið 2008 að byggingu skólphreinsistöðvar en hrunið hafði sín áhrif á framhaldið og því hefur það staðið í Akureyringum eins og flestöllum öðrum sveitarfélögum á landinu að ljúka framkvæmdum. Ætla má að átta af hverjum tíu sveitarfélögum á Íslandi hafi í engu eða litlu getað sinnt þessum málum – Akureyrarbær ætlar að koma fráveitumálum í eðlilegt horf innan þriggja ára.“

En hvað hefur bærinn þá veitt miklu fjármagni til fráveitumála undanfarið?

„Ef allur sá kostnaður sem lagður hefur verið í átakið við fráveitumál bæjarins fram til þessa er tekinn saman, þá er hann rúmir tveir milljarðar á verðlagi dagsins í dag og er þá hreinsistöðin ótalin.“

Ýmsar endurbætur

Bæjarstjóri leggur áherslur á að góðir áfangar hafi náðst í fráveitumálum á Akureyri á undanförnum árum og vísar til þess að búið sé að koma fyrir stofnum safnæða og dælustöðvum meðfram strandlengjunni sem sé forsenda fyrir byggingu hreinsistöðvar við Sandgerðisbót. „Vissulega væri æskilegt að hreinsistöðin væri nú þegar byggð og komin í gagnið en eins og að ofan er rakið þá sér til lands í því verkefni. Þá hefur Norðurorka upplýst að unnið er að ýmsum endurbótum í fráveitukerfinu með það í huga að ólíklegra sé að reyni á neyðaryfirföll í dælustöðvum. Með því að tryggja að yfirborðsvatn í leysingum, t.d. af bílastæðum og götum, fari í svonefndar ofanvatnslagnir en ekki í sjálft fráveitukerfið má minnka verulega hættuna á því að dælustöðvar fari á yfirfall. Sérstaklega er verið að skoða stöðina í Hafnarstræti norðan við athafnasvæði siglingaklúbbsins Nökkva í þessu sambandi. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er um tvö aðskilin safnkerfi að ræða: Annars vegar safnkerfi sem tekur við svonefndu ofanvatni þ.e. vatni af bílaplönum, götum, húsþökum o.s.frv. en hins vegar kerfi sem tekur við skólpi frá húsum, en það kerfi er í daglegu máli kallað fráveitukerfi.“

Kannast ekki við þrýsting matvælafyrirtækja

Í frétt á bls. 2 er sérstaklega vísað til ímyndar matvælafyrirtækja sem standa við skólpmengaða strandlengju drjúgan hluta ársins. Akureyri vikublað spurði bæjarstjóra út í aðstæður sem geta skapast í stórbrimi og hvort hagsmunaaðilar þ.e. matvælafyrirtækin hafi sett þrýsting á bæjaryfirvöld í þessum efnum?

„Mér er ekki kunnugt um að hagsmunaaðilar hafi með formlegum hætti þrýst á bæjaryfirvöld vegna fráveitunnar. Augljóst er hins vegar að hér er um sameiginlega hagsmuni okkar að ræða. Á hinn bóginn þarf að hafa í huga að matvælafyrirtæki, hvort sem þau eru nær eða fjær strandlengju, eru með sína vinnslu í lokuðum ferlum (oftast vottuðum) og þurfa að sjálfsögðu að sníða sínar mengunarvarnir að ýmsum utanaðkomandi þáttum, s.s. meindýravörnum o.s.frv. Að sjálfsögðu er mikilvægt fyrir alla hagsmunaaðila í bænum, hvort sem þeir eru í ferðaþjónustu eða matvælaiðnaði, að lágmarka eins og kostur er mengunarhættu frá sjó og markmið okkar eru einmitt þau að þeirri hættu verði með öllu bægt frá innan þriggja ára eins og áður er rakið. Ég held því að verkefnið sé í góðum farvegi þótt auðvitað hefði verið ákjósanlegra að ljúka því fyrr – en ekki verður á allt kosið.“

Segir málið í forgangi

Bæjarstjóri hafnar því að fráveitumál séu ekki í forgangi, ólíkt því sem fram kemur hjá sumum viðmælendum blaðsins. „Þessi mál eru í forgangi eins og áður er rakið. Það er keppikefli okkar að Pollurinn og Fjörðurinn verði eins hreinn og laus við mengun eins og hægt er. Akureyrarbær má búast við stórauknum straumi ferðamanna á allra næstu árum. Það leggur enn meiri þrýsting á okkur að klára fráveitumálin og ljúka þessu árið 2018 eða mögulega árið 2017.“ Bæjarstjóri vísar til þess að hin einstaka mæling sem sýndi óhagstæð gildi muni ekki breyta miklu þar um. „Miðað við áætlanir okkar í fráveitumálum þá er mjög líklegt að hér sé um að ræða storm í vatnsglasi og að ný skólphreinsistöð við Sandgerðisbót árið 2018 muni mæta öllum þeim kröfum sem gerðar eru.“

UttektStormur í vatnsglasi eða ekki?

Ljóst er að deila má um það orðalag bæjarstjóra að kalla málið storm í vatnsglasi. En hvað skýrir að sveitarfélög á stór-Reykjavíkursvæðinu standa sig að jafnaði betur en ýmis sveitarfélölög úti á landi í frárennslismálum?

„Líklega má að einhverju leyti skýra það með hagkvæmni stærðarinnar. Árið 1992 gerðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem velflestir landsmenn búa, með sér samkomulag um úrbætur í frárennslismálum og síðan hefur söfnun fráveitu, meðfram ströndinni og þaðan í hreinsistöðvar, komið í áföngum. Hreinsistöð í Ánanaustum 1998, 2002 við Klettagarða, 2005 er byggð dælustöð við Gufunes sem dælir skólpi í hreinsistöðina við Klettagarða og síðan er gert ráð fyrir að þriðja og síðasta hreinsistöðin verði tekin í notkun á Kjalarnesi á næstunni. Ljóst má vera að samtakamáttur og stærðarhagkvæmni hefur hjálpað til að ná þessum góða árangri – en þó kemur fleira til,“ svarar bæjarstjóri.

„Ríkisstjórn Íslands hafði ákveðið að styðja sveitarfélög í þeirri viðleitni að koma fráveitumálum í gott horf og á sínum tíma var stofnaður sérstakur fráveitusjóður sem í átti að renna virðisaukaskattur af framkvæmdum hjá sveitarfélögunum. Þetta var gert til þess að létta undir með sveitarfélögunum við úrbætur í fráveitumálum en sjóðurinn var ekki stór og t.d. þegar eitt ótiltekið sveitarfélag réðst strax í framkvæmdir tæmdist sjóðurinn það árið. Fyrir um áratug ákvað þáverandi ríkisstjórn Íslands að leggja sjóðinn niður og þannig var kippt fótum undan áætlunum sveitarfélaga um úrbætur í fráveitumálum og svo kom bankahrunið. Án þess að ég vilji kenna einum eða neinum um þá lagðist hér allt á árarnar um að tefja þær góðu fyrirætlanir sem sveitarfélögin landið um kring höfðu haft á prjónunum.“

Flutningur til Norðurorku til bóta

Spurður hvort bæjarstjóri telji til bóta að Norðurorka hafi tekið þennan málaflokk yfir, telur hann svo vera. „Já, ég held að það sé á engan hallað þótt ég segi að Norðurorka hafi einmitt burði, þekkingu og þrótt til þess að klára þetta mikilvæga verkefni á tilsettum tíma. Ég þekki vel til þess starfs sem fólk innir af hendi hjá Norðurorku og treysti því til góðra verka.“

Árið 1993 voru Vatnsveita Akureyrar og Hitaveita Akureyrar sameinaðar og árið 2000 bættist Rafveita Akureyrar við og til varð sameinað veitufyrirtæki Akureyringa, Norðurorka. Síðan þá hafa veitur í nágrannasveitarfélögum sameinast Norðurorku hf.

Hugmyndir um frekari sameiningu með því að fráveita Akureyrar verði hluti af rekstri Norðurorku hf. urðu svo nýverið að veruleika en í samningi bæjarins og Norðurorku er gert ráð fyrir að farið verði í byggingu hreinsistöðvar við Sandgerðisbót á næstu árum.

„Samningsaðilar eru sannfærðir um að til lengri tíma litið muni þessi sameining skapa tækifæri til bættrar umgengni við náttúruna og enn betri þjónustu við íbúa og fyrirtæki á Akureyri,“ sagði í fréttatilkynningu á sínum tíma þegar Norðurorka tók frárennslismálin yfir.

 

Heimild: Akureyri.net

Fleira áhugavert: