Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsaáhrifum

visir

Hörður Arnarson

Hörður Arnarson

Ísland hefur náð einstökum árangri í notkun á endurnýjanlegri orku við raforkuframleiðslu og húshitun. Um 80% af orkunotkun Íslendinga eru frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er árangur sem engin önnur þjóð hefur náð. Þessi auðlind okkar hefur haft mikil áhrif á lífskjör á Íslandi og aukið lífsgæði, m.a. með því að færa okkur ódýrt rafmagn og gera okkur kleift að kynda híbýli okkar eftir þörfum.

80% af raforku á Íslandi eru notuð í iðnað, sem óhjákvæmilega veldur losun gróðurhúsalofttegunda, en á sama tíma hefur aukin notkun áls og kísilmálms jákvæð áhrif á umhverfi. Áliðnaðurinn með því að létta farartæki og kísilmálmur sem framleiðsluefni í sólar­rafhlöður.

Frá 1990 hefur raforkunotkun í heiminum nálega tvöfaldast. Stærstum hluta aukningarinnar hefur verið mætt með brennslu á kolum og öðru jarðefnaeldsneyti, með mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Gegn þessu þarf að sporna.

Hlutur vatnsorku í heiminum minnkað
Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.

Framleiðsla á áli í heiminum hefur nálega þrefaldast á síðustu 25 árum. Stærstum hluta þessarar aukningar hefur verið mætt með raforku sem unnin er með því að brenna kolum og jarðgasi, einkum í þróunarríkjunum. Síðan 1990 hefur hlutur kola og jarðgass nærri tvöfaldast, á meðan hlutur vatnsorkunnar hefur nærri helmingast.

Frá 1990, sem er viðmiðunar­ár Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hefur raforkusala á Íslandi til stóriðju rúmlega sexfaldast. Að langstærstum hluta er um að ræða aukna álframleiðslu, en einnig hefur orðið aukning hjá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og nýr stórkaupandi, Becromal við Akureyri, hefur hafið rekstur.

Sex milljónum tonna minni losun
Aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Sé miðað við losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu til álframleiðslu í heiminum má færa sterk rök fyrir því að aukning í sölu á rafmagni til stóriðju hér á landi hafi á síðasta ári komið í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur rúmlega sex milljónum tonna af koldíoxíði. Þetta er mun meira en heildarlosun Íslands vegna allrar starfsemi í landinu, heimila, iðnaðar, samgangna, fiskveiða o.s.frv. Árið 2012 var heildarlosunin um 4,5 milljónir tonna.

Í Kýótóbókuninni er lögð áhersla á að þjóðir heims nýti endurnýjanlegar orkulindir til að mæta orkuþörf mannkyns. Íslendingar ráða yfir mun meiri slíkum orkulindum en þeir hafa þörf fyrir vegna starfsemi innanlands. Nýting endur­nýjan­legra orkulinda Íslands er því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Við getum verið stolt af okkar framlagi.

 

Heimild: Vísir

 

Fleira áhugavert: