Fráveitumálin verði í viðunandi horfi fyrir 2005

mbl

Ágúst 2002

 

Fráveitur

SVEITARSTJÓRAR á Suðurlandi segja að verið sé að taka fráveitumál sveitarfélaganna í gegn en frárennsli á Suðurlandi er víða í ólestri.

Var þar vitnað til skýrslu starfshóps landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar, um salmonellu og kamfýlóbakter á Suðurlandi. Þar segir m.a. að það sé óviðunandi að lítt eða óhreinsað skólp renni frá býlum og stórum þéttbýliskjörnum beint út í umhverfið og blandist þar með yfirborðsvatni sem sé gjarnan drykkjarvatn dýra. Að skýrslunni unnu Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, Guðni A. Alfreðsson prófessor, Níels Árni Lund deildarstjóri og Sveinn Sigurmundsson ráðunautur.

Ágúst Ingi Ólafsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, viðurkennir að á Hvolsvelli vanti nokkuð upp á að frárennslismál séu í viðunandi horfi. Ágúst bendir þó á að byggð hafi verið rotþró fyrir Hvolsvöll árið 1995 og að nú sé verið að vinna að hönnun nýrrar skólphreinsistöðvar. Stefnt sé að því að hún verði tekin í notkun fyrir árið 2005.

„Við stefnum að því að þessi mál verði komin í viðunandi horf fyrir árslok 2005,“ útskýrir hann en samkvæmt lögum nr. 53 frá árinu 1995 er stefnt að því að koma fráveitumálum sveitarfélaga í viðunandi horf fyrir lok ársins 2005. Aðspurður segir Ágúst að sveitarfélagið hafi unnið að því að bæta fráveitumálin í nokkur ár.

Bendir hann í því sambandi á rotþróna, sem áður var getið um og var tekin í notkun árið 1995. Hann segir þó að fjárskortur hafi hamlað því að hægt hafi verið að fara hraðar í uppbyggingu viðunandi fráveitu fyrir Hvolsvöll. Ágúst segir að rotþróin hafi kostað sveitarfélagið tugi milljóna kr. og að búast megi við að kostnaður við skólphreinsistöð verði ekki minni.

Á grundvelli laga nr. 53 frá árinu 1995, sem vitnað var til hér að ofan, starfar svokölluð fráveitunefnd, sem hefur það að markmiði að styðja fjárhagslega við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Nefndin gerir tillögu til umhverfisráðherra um úthlutun slíkra styrkja til sveitarfélaga en miðað er við að styrkurinn sé um 20% af þeim heildarraunkostnaði sem viðkomandi framkvæmdir kosta sveitarfélagið og eru styrkhæfar samkvæmt lögum.

Þegar Ágúst er spurður um álit sitt á þessum styrkveitingum segir hann að sér finnist ekki óeðlilegt að ríkið taki meiri þátt í kostnaði vegna fráveituframkvæmda en sem fyrrgreindri prósentu nemur, sérstaklega hjá þeim sveitarfélögum sem eru langt inni í landi. „Hjá þeim sveitarfélögum sem eru langt inni í landi, eins og Hvolsvelli, þarf t.d. að leggja langar lagnir. Það gæti orðið litlum sveitarfélögum ofviða,“ segir hann.

Ágúst Ingi bendir einnig á að fráveitunefndin veiti ekki styrki vegna hönnunarkostnaðar, einungis þess kostnaðar sem fylgir framkvæmdunum sjálfum. „Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum styrk,“ segir hann, „en í raun má segja að hann sé endurgreiðsla á virðisaukaskattinum. Ef maður reiknar virðisaukaskattinn til baka er hann 19,86% og styrkur fráveitunefndarinnar er 20%.“

Fráveitur´1Ekki vilji íbúa að menga umhverfið

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra, segir eins og Ágúst Ingi að hjá langflestum bæjum og sumarbústöðum í sveitarfélaginu séu rotþrær eins og reglugerðir gera ráð fyrir. Hins vegar sé verið að vinna að því að bæta fráveitumálin við Hellu. Sú vinna hafi byrjað á árunum 1995 til 1996.

Stefnt er að því, segir hann, að koma fráveitumálum bæjarins í viðunandi horf, í áföngum, fyrir árið 2005. Þá verði tekin í notkun skólphreinsistöð sem verði fyrir neðan byggðina á Hellu. Spurður að því hvers vegna það muni taka þetta langan tíma segir hann að um viðamikið verkefni sé að ræða.

„Þetta þarf að vinna í áföngum bæði vegna fjárhagslegra þátta sem og vegna tæknilegra þátta,“ segir hann. Hann segir t.d. að ekki sé búið að ákveða nákvæmlega um hvers konar skólphreinsistöð verði að ræða.

Guðmundur Ingi tekur þó fram í þessu sambandi að það sé ekki vilji íbúa sveitarfélagsins að menga umhverfið. „Fólk vissi bara ekki betur fram á síðasta áratug en að allt væri í lagi í þessum málum,“ útskýrir hann. „Menn eru hins vegar að vakna upp við það að þessi mál séu í ólestri og að þau þurfi að leysa með öðrum hætti heldur en gert hefur verið. Og nú er unnið að því af fullum krafti, þ.e. eins og mögulegt er miðað við stærð sveitarfélagsins, að koma þessum málum í viðunandi horf.“

Guðmundur Ingi segir eins og Ágúst Ingi að ríkið mætti taka meiri þátt í kostnaði við fráveituframkvæmdir þeirra sveitarfélaga sem eru langt inni í landi. „Fráveitunefnd hefur samkvæmt lögum í nokkur ár veitt sveitarfélögum styrki sem hafa verið á bilinu 15 til 30% af framkvæmdakostnaði við úrbætur í fráveitumálum. Þeirri skoðun hefur aftur á móti verið haldið fram að þau sveitarfélög sem ekki liggja að sjó þurfi að styrkja meira vegna þess að þau þurfi að fara út í flóknari og dýrari aðgerðir en þau sem liggja að sjó.“

Guðmundur Ingi tekur fram að í mörgum tilfellum sé um fámennar byggðir að ræða sem hafi takmarkaða framkvæmdagetu. Nefnir hann sem dæmi byggðir eins og Hveragerði, Selfoss, Hellu, Hvolsvöll, sem og Egilsstaði, Varmahlíð og Reykjahlíð. „Á öllum þessum stöðum þarf að fara út í dýrar og viðamiklar framkvæmdir,“ segir hann.

Taki tillit til mismunandi aðstæðna

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hafa skólpmál í Hveragerði verið tekin í gegn á síðasta ári, en í júní sl. var tekin í notkun ný skólphreinsistöð, sem er rétt neðan við byggðina. Orri Hlöðversson, bæjarstjóri í Hveragerðisbæ, segir að nýja skólphreinsistöðin skipi Hvergerðingum í fremstu röð í fráveitumálum. „Áður en skólphreinsistöðin var tekin í notkun voru þessi mál hins vegar í ólestri í Hveragerði,“ viðurkennir hann. Hann segir ennfremur að nú sé verið að vinna að því að koma holræsakerfi bæjarins í viðunandi horf.

Orri skýrir frá því að skólphreinsistöðin taki við skólpi frá bænum. Í stöðinni sé það hreinsað og þegar þeim ferli sé lokið skili stöðin hreinsuðu vatni út í Varmá. Hann segir að framkvæmdir við stöðina hafi byrjað á síðasta ári, en áður hafi tekið einhvern tíma að vinna að hönnun mannvirkisins. Spurður að því hvers vegna ekki hafi verið ráðist fyrr í þessar framkvæmdir segir hann að ástæðan sé m.a. sú að fólk hafi ekki verið sér meðvitandi um mikilvægi þessara mála fyrr. „Kröfurnar hafa aukist á síðastliðnum árum,“ segir hann.

Hann segir þó að það skipti líka máli að fjárhagslega séu framkvæmdir sem þessar stór biti fyrir fámenn sveitarfélög. Aðspurður segir hann að kostnaður við nýju skólphreinsistöðina fari að nálgast 200 milljónir kr. „Þetta er mikið fyrir sveitarfélag sem er með skatttekjur í kringum 400 til 450 milljónir króna,“ segir hann.

Þegar hann er spurður að því hvort honum finnist að ríkið ætti að taka meiri þátt í kostnaði við framkvæmdir sem þessar en nú er skv. lögum segist hann telja að ríkið eigi að taka tillit til mismunandi aðstæðna sveitarfélaga.

„Án þess að ég sé sérfræðingur í þessum málum tel ég að lausnir sveitarfélaga í fráveitumálum hljóti að vera mismunandi. Ég held t.d. að þær séu dýrari fyrir þau sveitarfélög sem eru inni í landi.“ Hann kveðst þó ekki hafa myndað sér skoðun á hversu mikil aðstoð ríkisins ætti að vera.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: