Áform um að setja upp varmadælu á Tálknafirði

Rúv

varmadæla á Tálknafirði

Mynd: Jóhannes Jónsson – RUV.IS

Áform eru um að nota varmadælu til húshitunar fyrir alla byggðina á Tálknafirði. Oddviti hreppsins segir markmiðið vera að færa sig úr raforku í aðra staðbundna orkugjafa.

Rétt fyrir utan byggðina í Tálknafirði er borhola með 45 gráðu heitu vatni. Vatnið er nú þegar notað til að kynda grunnskólann og sundlaugina. Nú er verið að endurnýja lögnina sem liggur inn í þorpið og því er verið að kanna hvort að koma megi fyrir varmadælu sem nýtir vatnið sem varmagjafa og hækkar hitastigið í nægilega heitt vatn til húshitunar í allri byggðinni. Ekki er ljóst hvort hentar betur ein stór varmadæla eða margar litlar né hver stofnkostnaðurinn yrði.

Indriði Indriðason er oddviti í Tálknafjarðarhreppi: „Þetta mun þýða það að fólk sér lækkun á húshitunarkostnaði. Það er svona fyrst og fremst markmiðið með þessu. En svo er líka markmiðið að færa sig yfir í aðra orkugjafa, sem eru þá staðbundnir á hverjum stað.“ Hann segir varmadælur vera góðan kost fyrir fleiri sveitarfélög: „Fyrir þau sveitarfélög sem búa á volgum svæðum þá er þetta góður kostur.“ Tálknfirðingar fylgja fordæmi Vestmanneyinga en í Vestmannaeyjum eru einnig áform um að nýta varmadælu til húshitunar fyrir byggðina.

Orkubú Vestfjarða hefur lýst sig reiðubúið til að koma að verkefninu á Tálknafirði og samþykkti sveitarstjórn nýverið drög að samkomulagi við Orkubúið. „Við erum að rétt að byrja á þessu núna, að skoða hvernig þetta mun líta út en við vonumst til að geta hafist handa fljótlega,“ segir Indriði.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: