Fráveita OR fær gæðavottun

mbl

júní 2006

 

Dælustöðvar OR útrás

FRÁVEITAN, sú deild Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sem annast fráveitulagnir á starfssvæði OR, hefur uppfyllt kröfur þriggja vottaðra gæðakerfa. Þau eru gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001 staðlinum, umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001 staðli og öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt OHSAS 18001 staðli. Þá hefur Fráveitan tekið upp innra eftirlitskerfi samkvæmt HACCP (Gámes) aðferðafræði og bíður það vottunar. Það er líklega einsdæmi að fráveita vinni eftir HACCP aðferðafræði.

OR tók að sér rekstur Fráveitu Reykjavíkur 1. júlí síðastliðinn með þjónustusamningi við Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar. Um síðustu áramót sameinuðust svo fráveitur Akraness, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar OR. Sigurður Ingi Skarphéðinsson, deildarstjóri Fráveitu OR, sagði að stofnæðarnar væru nú 750-800 km að lengd. Þar til viðbótar eru svo lagnir heim að hverju húsi og öðrum stöðum sem tengjast kerfinu.

Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að því að fráveitukerfi Reykjavíkur uppfylli kröfur gildandi reglugerðar um fráveitur og skólp. Í því skyni hafa m.a. verið byggðar dælustöðvar og hreinsistöðvar. Hreinsun strandlengjunnar lauk í öllum meginatriðum um mitt síðasta ár þegar tekin var í notkun dælustöð í Gufunesi. Hún flytur skólp frá austustu hverfum borgarinnar að hreinsistöð við Klettagarða.

Skólpi og regnvatni er dælt út fyrir eyjarnar í Kollafirði og eru þynningarsvæði frárennslisins afmörkuð þar. Að sögn Sigurðar er vel fylgst með því að gerlamengun fari ekki yfir tilskilin mörk á þynningarsvæðunum. OR hefur sett sér þau viðmið að fjöldi saurgerla eða saurkokka sé undir 100 í hverjum 100 ml sjávar í minnst 90% tilvika utan þynningarsvæðanna. Þetta er m.a. mælt við strandlengjuna og eyjarnar á Sundunum. Þetta eru sömu viðmiðunarmörk og reglugerðin krefst þar sem matvælaiðnaður er við strönd, en hér var ákveðið að skilgreina alla ströndina á sama hátt. Sums staðar á baðstöðum, t.d. á Norðurlöndum, má þessi fjöldi ekki fara yfir 50 í hverjum 100 ml, en víða eru viðmiðunarmörkin fyrir baðsjó önnur og hærri en þau sem OR setur um gerlamengun í sjó utan þynningarsvæðanna.

Baðströndin í Nauthólsvík gott dæmi um jákvæð áhrif

Á nokkrum stöðum við strendur höfuðborgarsvæðisins er þynntu skólpi sleppt út um yfirföll. Það gerist t.d. í mikilli rigningu og þá þynnir regnvatnið skólpið svo það verður aldrei meira en 20% blöndunnar. OR hefur sett sér það markmið að þessi yfirföll séu ekki virk meira en 5% af árinu. Þessi losun er skráð kerfisbundið og fylgst með því að hún sé innan marka. Baðströndin í Nauthólsvík er glöggt dæmi um jákvæð áhrif hreinsistöðvanna á umhverfið. Baðströndin var lokuð um árabil vegna gerlamengunar. Sjórinn þar varð hæfur til baða aðeins nokkrum vikum eftir að nálægar útrásir voru fjarlægðar. Árið 1998 var skólpdælustöðin við Ánanaust tekin í notkun og áhrifin síðan rannsökuð 2002. Sigurður sagði að samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum væru áhrif skólps og frárennslis á lífríkið hverfandi innan þynningarsvæðanna. Ekki fundust breytingar til hins verra við ströndina, heldur miklu fremur til hins betra.

Loftur R. Gissurarson, framkvæmdastjóri gæða-, umhverfis- og öryggismála OR, sagði að sömu gæðakerfi og nú hafa fengist vottuð fyrir Fráveituna hefðu gilt fyrir aðra miðla OR, þ.e. heitt vatn, kalt vatn og rafmagn.

Vinnan við vottun Fráveitunnar var mikil skorpa. Hún hófst í október síðastliðnum og lauk 8. maí þegar bætt hafði verið úr öllu sem athugasemdir höfðu verið gerðar við. Aðeins er eftir að fá innra eftirlitskerfið samkvæmt HACCP vottað og er það ferli í vinnslu.

Mörg verkefni framundan

Þeir Loftur og Sigurður vita um nokkrar fráveitur á Norðurlöndum sem hafa fengið vottun samkvæmt a.m.k. sumum þeim stöðlum sem Fráveita OR hefur nú fengið vottun samkvæmt. Þeir segja hins vegar að líklega sé það einsdæmi að fyrirtæki af þessu tagi byggi upp innra eftirlitskerfi. HACCP aðferðafræðin hefur mikið verið notuð t.d. í olíuiðnaði og eins í matvælaiðnaði, sem er algengt hér á landi. Aðferðafræðin snýr að greiningu áhættuþátta. Hjá Fráveitunni er aðferðafræðinni beitt til að greina veika punkta í kerfinu og hafa sérstakt eftirlit með þeim. Tilgangurinn með gæðavottun og auknu innra eftirliti er að gera allt viðhald og eftirlit með kerfinu markvissara en það var. „Þetta á að leiða til þess að kerfið verði betur rekið og þar með að fólk geti gengið út frá því vísu að þetta sé í lagi,“ sagði Sigurður.

Næsta verkefni Fráveitu OR er að byggja upp fráveitukerfi á Akranesi, Kjalarnesi og í Borgarfirði. Að sögn Sigurðar er nokkuð langt í land með að fráveitur þar uppfylli settar kröfur.

Gert er ráð fyrir að endurbótum á Akranesi og í Borgarbyggð hinni nýju ljúki síðari hluta árs 2008. Reistar verða bæði dælu- og hreinsistöðvar sem munu þjóna þéttbýli á fyrrtöldum stöðum og einnig á Bifröst, Hvanneyri, Varmalandi og í Reykholti í Borgarfirði. Á síðasttöldu stöðunum verða einnig reistar hreinsistöðvar og núverandi rotþrær lagðar af eða endurbættar.

Á næstu dögum verður tekin í notkun ný dælustöð í Örfirisey, sem tekur við skólpi frá fiskiðnaði. Sigurður sagði að dælustöðvum yrði væntanlega bætt við eftir því sem byggðin í Reykjavík þróaðist. Þannig væri fyrirsjáanlegt að byggð í Geldinganesi og eins á Álfsnesi kallaði á nýjar stöðvar, bæði dælustöðvar og hugsanlega einnig hreinsistöð.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: