Umbætur á miðsbæ Egilsstaða – sjá myndir

Rúv

Egilsstaðir miðbær

Smella á mynd til að stækka

Miðbær Egilsstaða hefur verið á teikniborðinu um nokkurt skeið en skipulag sem var samþykkt á sínum tíma þykir stórt í sniðum og erfitt í framkvæmd. Hönnunarhópur hefur nú lagt fram hugmyndir að mögulegum breytingum sem gætu orðið til þess að skriður komist á langþráðar umbætur í miðbænum.

Rauður dregill gæti breyst í orm

Í núverandi skipulagi sem Arkís gerði á árunum 2005-2007 er gert ráð fyrir svokölluðum rauðum dregli sem liggi í gegnum miðbæinn. Í nýju tillögunum sem ekki eru bindandi og eru fyrst og fremst ætlaðar til að koma af stað umræðu, hefur dregillinn verið minnkaður, mýktur og látinn aðlagast umhverfinu meira. Fréttastofa veit til þess að heimamenn hafi ekki „tengt“ við hugmyndina um rauðan dregil. Steinrún Ótta Stefánsdóttir, vöruhönnuður sem sat í hópnum, tekur undir þetta en í hugmyndum hópsins er göngugatan kölluð Ormurinn enda minnir gatan á teikningum hópsins meira á orm en rauðan dregil og kallast þannig á við söguna um Lagarfljótsorminn.

Mynd með færsluStórkallaleg áform

Steinrún Ótta telur að þannig ætti gatan að aðlagast betur byggingum sem eru fyrir í miðbænum. 18 metra breiður dregill hefði orðið mjög plássfrekur. „Okkar hugmynd var að gera þetta viðráðanlegra. Hugmyndin sem slík var ekkert alslæm hún var bara allt of stórkallaleg og gengur ekki upp í dag miðað við fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og legu miðbæjarins. Það yrði ekki nokkurstaðar skjól á þessum dregli,“ segir hún.

Torg við hús sem ekki er til

Í núverandi skipulagi er gert ráð fyrir menningar- og stjórnsýsluhúsi við enda rauða dregilsins og torgi fyrir framan húsið. Í hugmynd hönnunarhópsins hefur torgið hinsvegar verið flutt til og er nær miðju göngugötunnar við Gömlu símstöðina. „Það verður ekki til fjármagn í menningar- og stjórnsýsluhús á næstu árum. Á torgi þar yrði ekkert skjól fyrir norðanátt því húsið vantar og þegar fólk keyrir inn í bæinn vill það sjá torgið,“ segir Steinrún Ótta. Aðalverkefnið hafi verið að leggja til stað fyrir torgið og að fjölga bílastæðum og útfærði hópurinn bílastæði við Egilsstaðastofu á gamla tjaldstæðinu. Þá er lagt til að ásýnd nokkurra húsa verði breytt mjög og þannig yrði gamla símstöðin máluð svört og er hún kölluð Svarta perlan í tillögunum.

Mynd með færsluEkki nauðsynlegt að færa þjóðveginn

Núverandi skipulag gerir ráð fyrir því að færa þurfi þjóðaveg eitt og breyta mjög eldsneytisafgreiðslu og söluskála  N1 til að rýma til fyrir rauða dreglinum. Steinrún Ótta segir að þetta hafi verið eitt af því sem hafi hindrað að skipulagið kæmist í framkvæmd. Færsla á þjóðvegi eitt til að rýma til fyrir miðbæ á Egilsstöðum sé ekki inni á verkáætlun Vegagerðarinnar á næstunni. „Þannig að við tókum þann pól í hæðina að færa hann ekki en miða við að hægt yrði að færa hann og snúa söluskálanum við.“

Þróun í minni og viðráðanlegri skrefum

Steinrún Ótta segir að í nýju tillögunum sé meiri áhersla lögð á möguleika til að áfangaskipta verkþáttum. Ljóst sé að langan tíma muni taka að byggja miðbæinn upp en það að hafa heildarsýn gæti gert íbúana þolinmóðari því þá viti þeir hvert sé stefnt. Hönnuðir hafi fengið alveg frjálsar hendur og niðurstaðan sé ekki bindandi á neinn hátt heldur eigi að koma af stað umræðu um hvað megi betur fara. Í þessu felist þrýstingur á bæjaryfirvöld að hefja vinnu við að breyta skipulaginu. Stofnaður hefur verið starfshópur sem í sitja tveir fulltrúar hugmyndahópsins ásamt fulltrúum frá Arkís sem hönnuðu núverandi skipulag og fleirum. Í hönnunarhópnum sátu auk Steinrúnar Óttu, Anna María Þórhallsdóttir arkitekt og Bylgja Lind Pétursdóttir BA í arkitektúr.

Mynd með færslu

Mynd með færslu

Mynd með færslu

Mynd með færslu

Mynd með færslu

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: