Sæstrengur – Breskir fjárfestar rannsaka hafsbotninn en Landsvirkjun á enga aðkomu að þeim rannsóknum

Rúv

Sæstrengur 1

Landsvirkjun á enga aðkomu að rannsókarleiðangri sem nú er hálfnaður á sæstrengsleið til Bretlands. Breskir fjárfestar reyna að gera sig gildandi í verkefninu og láta félag sitt rannsaka hafsbotninn.

Rannsóknarskipið Stril Explorer kannar í sumar hafsbotninn milli Íslands og Færeyja vegna mögulegs sæstrengs til Bretlands. Rannsóknirnar eru alfarið á vegum félags breskra fjárfesta.

Sænska hafrannsóknarfyrirtækið MMT gerir út Stril Explorer en um borð er fjöldi vísindamanna. Það beitir fjarstýrðu tæki til að taka sónarmyndir af hafsbotninum þar sem mögulegur rafstrengur kæmi til með að liggja. Rannsóknarskipið byrjaði leiðangurinn við Færeyjar, sigldi til Íslands, hafði áhafnarskipti á Reyðarfirði á miðvikudag og fer nú sömu leið til baka. Að því loknu hefst rannsókn á leiðinni milli Færeyja og Bretlands.

Það er breska fyrirtækið Atlantic Superconnection Corporation sem lætur framkvæma rannsóknirnar. Félagið reynir að gera sig gildandi í lagningu raforkustrengs milli Íslands og Bretlands en að félaginu standa breskir fjárfestar sem vilja hagnast á lagningu strengsins. Á heimsíðu ASC segir að fyrirtæki vilji ekki aðeins sjá um fjármögnun á lagningu strengsins heldur einnig á nýjum virkjunum á Íslandi, stækkunum á þeim virkjunum sem fyrir eru, eflingu dreifikerfisins á Íslandi og byggingu á tengivirkjum sæstrengsins.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að Landsvirkjun sé ekki í neinu samstarfi við ASC. Þess í stað séu Landsvirkjun og Landsnet í samstarfi við dótturfyrirtæki National Grid sem dreifir rafmagni og gasi í Bretlandi. Rannsókn ASC sé sjálfstæð og tengist Landsvirkjun ekki á neinn hátt. Landsvirkjun, Landsnet og National Grid ætli ekki að láta framkvæma neinar rannsóknir í sumar. Fyrirtækin hafi ákveðið að byrja á því að viða að sér þeim gögnum sem til eru og vinna úr þeim. Komist hins vegar skriður á sæstrengsmálið þurfi að fara í rannsóknir næsta sumar.

 

Heimild: RÚV

 

Fleira áhugavert: