4,2 tonn af zínki í frárennsli í Reykjavík

mbl

Febrúar 1996

 

tæring neysluvatn

FJÖLDI kvartana hefur borist Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna brúnleits drykkjarvatns í nýrri hverfum Reykjavíkurborgar og hefur stofnunin unnið að rannsóknum á orsakavaldinum, innri tæringu í lögnum.

SIGURÐUR Hallsson verkefnastjóri hjá Heilbrigðiseftirlitinu segir enga gerlamengun í vatninu og það sé því ekki skaðlegt, en hins vegar geti járn farið yfir þau mörk sem miðað er við. Hann segir tæringuna stafa af hönnunargöllum í pípulögnum og röngu efnisvali, auk þess sem vatnið sé nú basískara en áður.

„Fólk er hins vegar það skynsamt að drekka ekki litað vatn og lætur það renna þangað til liturinn hverfur. Sem betur fer er vatnið drykkjarhæft þegar liturinn er horfinn, en það tekur mismunandi langan tíma að gerast, eftir því hversu tæringin er mikil,“ segir Sigurður.

Þarf að taka fyrir

Hann segir mælingar á zínki í frárennsli frá Reykjavík sýna að það er um 4,2 tonn á ári, en ekki eigi að vera mikið zínk í ferskvatni eða hitaveituvatni, þannig að mest megnis komi þetta úr pípulögnum. Þetta sé óeðlilega mikið magn. „Þetta er eitthvað sem þarf að taka mjög alvarlega fyrir og verður sjálfsagt gert núna þegar menn átta sig á því hvað þetta er víðtækt,“ segir hann.

Heilbrigðiseftirlitið hefur efnagreint vatnið og er þar að finna zínk og járn í talsverðum mæli. Það er gruggugt eða mórautt ásýndum, sérstaklega sýni sem tekin hafa verið í byggingum þar sem vatnið nær að standa í pípum og hitna.
tæring lagna„Það er í fyrsta lagi mælikvarði á tæringuna hvað vatnið hitnar mikið og hversu lengi það stendur. Vatnið hitnar bæði nærri hitavatnspípum og inni í vel einangruðum húsum. Yfir 30% af súrefni getur losnað úr vatninu, sem er orsök tæringarinnar. Hún er dreifð og ef súrefni er í mismunandi styrkleika á flötum sem eru í návígi við hvor annan, leiðir það til þess að tæring getur orðið á súrefnislausa svæðinu þó að þar sé sami málmur.

Aðrar orsakir má rekja til þess að vatnið okkar er tiltölulega basískt og meira en það var, því að nú tökum við vatn úr jörðu en ekki af yfirborði sem hefur sín áhrif. Sumir telja þetta hafa breyst um 1984-86, og það er ástæða til að athuga hvort sýra þurfi vatnið,“ segir Sigurður.

Lagt langar leiðir

Hann kveðst telja ljóst að ef lagnirnar eru nýlegar finnist meira magn af zínki en snúist þetta við, þannig að meira ber á járni, bendi það til að zínkið sé að miklu leyti horfið. Tiltölulega auðvelt sé að finna þær lagnir sem tæringin á sér upptök í, og þá sé hægt að skipta um þá hluta sem um ræðir eða lagfæra.

„Eitt dæmið sem við höfum um tæringu er þar sem vatnið fer upp í gegnum blokk sem byggð var 1972 og síðan lárétt niður í gegnum sömu blokk. Í leggnum sem vatnið fer niður um eru alls staðar fyrstu bunurnar brúnar og þá er ætlunin að breyta lögninni þannig að vatnið fari upp báðum megin, í stað þessa að fara langa leið. Þetta er eitt vandamálið í mörgum lögnum hér, að verið er að leiða lagnirnar þvers og kruss, kannski hundruð metra eftir endilöngum byggingum,“ segir hann.

Ekki hefur verið leyft að leggja annað en galvaníseruð neysluvatnsrör í Reykjavík en hinar Norðurlandaþjóðirnar eru almennt hættir því, Svíar t.d. fyrir fjörutíu árum að sögn Sigurðar. Þar er kopar algengur og pípur sverar.

„Þetta er hönnunaratriði og þarf að taka efnið í pípunum fyrir, en bæði ryðfrítt stál, plast og kopar koma til greina. Að ýmsu leyti erum við mjög aftarlega í pípulögnum, eins og sést t.d. á að heitavatnslagnir eru sums staðar í mjóum koparpípum og menn geta séð tæringuna sem brennisteinsvetnið veldur, auk þess sem mjóu pípurnar leiða til að vatnið fer hratt, þannig að þær skemmast hratt,“ segir Sigurður.

 

Heimild: Mbl

 

Fleira áhugavert: