Mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í Indónesíu

orkustofnun10

 

Nóvember 2015

Indonesia - orka

Miklir möguleikar eru í uppbyggingu jarðvarma

Líkt og Ísland býr Indónesía yfir ríkulegum sjálfbærum orkuauðlindum og eru þeir með mikil áform um virkjun bæði jarðvarma og vatnsafls á næstu árum og áratugum. Sendinefnd frá orku- og auðlindaráðuneyti Indónesíu var í heimsókn á  Íslandi 2. til 3. nóvember sl. í boði iðnaðar- og viðskiptaráðherra og fundaði hún með fulltrúum ráðuneytisins þar sem farið var sérstaklega yfir reynslu og þekkingu Íslendinga á sviði jarðvarma og hvernig auka mætti samstarf þjóðanna en mikil þörf er á þekkingu og tækni.

Í gildi er samstarfsyfirlýsing á milli landanna frá árinu 2007, um orku- og auðlindamál. Á fundinum kom fram vilji beggja ráðuneytanna  til að styðja við enn frekari samstarf á milli Íslands og Indónesíu á sviði jarðvarmanýtinga á grundvelli þeirrar yfirlýsingar – (sjá: http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Rafraen_afgreidsla/Indonesia_MoU_2007.pdf )

Auk fundar í ráðuneytinu, fundaði sendinefndin með Orkustofnun og  utanríkisráðuneytinu, auk þess sem sérstakur fjárfestingafundur var haldinn fyrir fyrirtæki á vegum jarðvarmaklasans og annarra fyrirtækja sem áhuga höfðu á samstarfi.

Jafnframt átti sendinefndin fund með sérfræðingum frá Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem Indónesar lýstu yfir áhuga að senda áfram nema í skólann, en fram til þessa hafa 29 Indónesar verið þar við nám.

Sendinefndin heimsótti orkuver HS Orku í Svartsengi, þar sem skoðuð var m.a. sérstök túrbína sem kölluð er kolkrabbinn. Túrbínan, sem framleidd var í Japan eftir sérstökum kröfum frá HS Orku, til að auka nýtingu, er ein  sinnar tegundar í heiminum.

Albert Albertson hjá HS Orku, lýsti starfseminni fyrir gestunum

Í máli Indónesa kom fram að reiknað væri með að orkuþörf muni aukast um 7-8% á ári næstu ár, þar sem gert væri ráð fyrir 5-6% hagvexti og fólksfjölgun um 1,2%. Einnig hefðu stjórnvöld nýlega mótað stefnu til að auka verulega hlut endurnýjanlegrar orku í orkuvinnslu landsins frá 9,8% árið 2015 í 23% árið 2025.

Það er því mikil uppbygging framundan í Indónesíu á sviði endurnýjanlegrar orku, ekki síst á sviði jarðvarma, þar sem gert er ráð fyrir að auka orkuframleðslu frá 1.440 MW árið 2015 í 4.276 MW árið 2020 sem er tæp 200% aukning næstu 5 ár eða sem nemur 570 MW á ári. Til samanburðar má geta þess að orkuframleiðsla Kárahnjúkavirkjunar er um 690 MW, þannig að árlega er áætlun að bæta við jarðvarmavirkjunum sem nema tæplega stærð Kárahnjúkavirkjunar.

Einnig er gert ráð fyrir að auka orkuvinnslu á sviði vatnsafls og því einnig möguleikar á samstarfi á því sviði á milli fyrirtækja á Íslandi og Indónesíu.

Á næstunni mun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinna frekar að þróun þessa samstarfs í samstarfi við  innlenda aðila og ráðuneyti orku- og auðlindamála í Indónesíu.

 

Heimild: OS

Fleira áhugavert: