Jarðhitaleit við Hoffell í Hornafirði

ísor

borhola ASK-122

Um 70°C heitt vatn flæðir frá borholu ASK-122 við Hoffell. Ljósmynd Heimir Ingimarsson.

Góður árangur hefur orðið af borun tveggja rannsóknarholna við Hoffell í Hornafirði nú í haust. Holurnar eru um 500 m djúpar og gaf önnur holan við lok borunar um 20 L/s af liðlega 70°C vatni í sjálfrennsli og hin staðfesti yfir 60°C hita á 500 m dýpi svo væntingar um að þarna muni fást nægt vatn fyrir hitaveitu til Hafnar hafa aukist.

Jarðhitaleit við Hornafjörð hófst fyrir alvöru með borun á grunnum rannsóknarholum árið 1992 og hefur staðið með hléum síðan. Boraðar voru allmargar grunnar rannsóknaholur til að mæla hitastigul og fannst þá svæði með afbrigðilega háum hitastigli við Hoffell sem benti sterklega til nærliggjandi jarðhitakerfis. Hæsti hitastigullinn mældist á litlu svæði sem benti til þess að jarðhitinn tengdist stuttri sprungu með norður-suður stefnu. Jafnframt var ljóst að hækkaður hitastigull teygði sig langt til norðausturs frá þessari sprungu sem talið var merki um aðra jarðhitasprungu. Á grundvelli þessarar niðurstöðu voru boraðar nokkrar heldur dýpri holur við meinta norður-suður sprungu sem gáfu allt að 55°C vatn. Var ein þeirra fljótlega virkjuð fyrir heita potta og til upphitunar. Hitamælingar og efnasamsetning vatnsins úr holunni og öðrum grynnri gáfu vonir um allt að 80°C heitt jarðhitakerfi við Hoffell. Niðurstöður borananna voru túlkaðar þannig að norður-suður sprungan væri aðaluppstreymissprungan og henni hallaði lítillega til austurs. Því væri næsta skref að bora djúpa vinnsluholu skammt austan við norður-suður sprunguna. Rannsóknir þessar voru að mestu unnar fyrir Hornafjörð af Jarðfræðistofunni Stapa með nokkurri aðkomu Jarðhitadeildar Orkustofnunar, forvera ÍSOR.

Síðustu árin hefur RARIK staðið að jarðhitaleit við Hoffell í Hornafirði í þeim tilgangi að finna heitt vatn til upphitunar á Höfn og fékk ÍSOR til liðs við sig árið 2012 til að stýra rannsóknunum. ÍSOR gerði þá mælingar með borholusjá í þeim borholum sem höfðu gefið vatn í þeim tilgangi að mæla stefnu og halla vatnsæðanna sem höfðu fundist. Í ljós kom að bestu æðarnar voru í sprungum með norðaustur stefnu og með halla til suðausturs en norður-suður sprungur sáust einnig. Var sú ályktun dregin að líklega væri norðaustur sprungan aðaluppstreymissprunga jarðhitans. Því var afráðið að bora djúpa holu sem skæri norðaustur sprungurnar á nærri 1 km dýpi. Borun þeirrar holu gekk vel. Mælingar með holusjá sýndu að hún hitti í þær sprungur sem að var stefnt og prófanir á holunni sýndu að hún gæti gefið um 15 L/s af 73°C vatni til langframa.

Jarðborinn Trölli við borholu ASK-122. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Jarðborinn Trölli við borholu ASK-122. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Þetta vatnsmagn nægir þó ekki í hitaveitu fyrir Hornafjörð. Því var afráðið að bora aðra djúpa holu við norður-suður sprunguna og ganga úr skugga um hvort henni fylgdu verulegar vatnsæðar. Svo reyndist ekki vera og komu engar umtalsverðar vatnsæðar fram í holunni. Var nú talið afar líklegt að norðaustlæga sprungukerfið væri meginuppstreymi jarðhitans og athyglinni beint að því. Boraðar voru nokkrar grunnar hitastigulsholur síðastliðið vor til að staðsetja legu norðaustur sprungunnar og bar niðurstöðum vel saman við áætlaða legu hennar samkvæmt holusjármælingum. Í kjölfarið voru svo í haust boraðar tvær 500 m djúpar rannsóknarholur sem miðað var á þetta sprungukerfi og gaf önnur þann prýðisárangur sem áður er um getið og báðar staðfestu að jarðhitasvæðið er stærra en áður var talið.

 

Heimild: Ísor

Fleira áhugavert: