Allt of langt er á milli salerna við þjóðveg eitt

ruv

 

Langt milli salerna

Mynd: RÚV

Allt of langt er á milli salerna við þjóðveg eitt segir umhverfisverkfræðingur sem vinnur að úttekt á ástandinu. Tillögum um úrbætur verður skilað í vor, enda salernisaðstaða ein af grunnstoðum ferðaþjónustunnar

Það þarf líklega ekki að segja þeim sem ferðast um landið að stundum getur verið langt á milli salerna, sem getur komið sér illa og í sumar bárust fréttir af ferðamönnum sem gengu örna sinna þar sem þeim sýndist. Verkfræðistofan Efla fékk styrk frá Vegagerðinni til að kanna þörfina á salernisaðstöðu meðfram þjóðvegum landsins og bera saman við það hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndunum.

„ Staðan er sú að það vantar víða meðfram hringveginum vegasalerni í dag. Sérstaklega á kvöldin og nóttunni er mjög langt á milli vegasalerna“, segir Ragnhildur Gunnarsdóttir umhverfisverkfræðingur.

Það er vegna þess að ferðamenn komast helst á salerni á veitingastöðum og í vegasjoppum. Ragnhildur segir rekstur vegasalerna á Norðurlöndunum yfirleitt á borði vegagerða, en hér sé það ekki þannig. Hún segir of langt á milli salernanna.

„Það er víða mun lengra en mælt er með, til að mynda í Finnlandi og Noregi, mun lengra á milli staða. Það eru auðvitað töluvert ólík vegakerfi í þessum löndum en það er sama, það er mjög víða mjög langt á milli salerna, sérstaklega á kvöldin og nóttunni.“

Í Noregi hefur víða verið vandað til verka við vegasalernin og eru sum þeirra eru hinn glæsilegasti arkitektúr. Verkfræðistofan Efla mun skila tillögum sínum til Vegagerðarinnar næsta vor.

„Þetta er það sem er talað um erlendis sem eina af grunnstoðum ferðaþjónustunnar. Grunnþjónusta við ferðamenn er að fólk geti komist á salerni hvar sem það stoppar á helstu ferðamannastöðum. Þetta er grunnþjónusta sem við þurfum að bæta“ segir Ragnhildur.

Það má líklega taka undir það, því þegar kort yfir vegasalerni er skoðað kemur í ljós að þau eru fá og mjög langt í næsta náðhús.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: