Allir eru að gera það gott… nema þú?

visir

Rúna Magnúsdóttir

Rúna Magnúsdóttir

Ertu hugmyndaríkur frumkvöðull sem fær hugmyndir hægri vinstri? Ertu einn af þeim sem fá svo margar hugmyndir að einn tíundi væri meira en nóg? Þú ert snillingur í að byrja hluti, en kannski ekkert sérstaklega góður í að klára hluti. Þú veist að þú ættir að klára hlutina og pirrast yfir sjálfum þér og segir jafnvel við sjálfan þig: „Oh?… hvaða aumingi er ég eiginlega?“

Ertu ekki þessi hugmyndaríki frumkvöðull? Kippist hjarta þitt frekar við þegar þú færð tækifæri til að skoða hvað vantar inn í viðskiptaáætlanir? Þú ert snillingur í að sjá hvað vantar í heildardæmið, en þú ert ekkert sérstaklega góður í að fá hugmyndir til að bæta dæmið. Segir við sjálfan þig: „Hvað er að mér? Ég fæ aldrei neinar hugmyndir. Allir í kringum mig virðast fá hugmyndir?… nema ég.“

Ertu kannski þessi aðili sem elskar að fá tækifæri til að láta ljós þitt skína? Þú virðist geta selt allt og alla. Þú ert frábær sölumaður, en þú ert kannski ekkert sérstaklega góður í að halda utan um söluna, búa til skýrslur og hefur kannski meiri tilhneigingu til að „gleyma“ að skila alls konar skýrslum og innra með þér hugsar þú kannski: „Oh?… þessar skýrslur og ég, hvernig get ég komist hjá því að gera þetta án þess að nokkur fatti?“

Ekki þú?

Ertu kannski meira þessi sem finnst dagurinn þinn vera fullkominn þegar þú sérð viðskiptavininn brosa til þín geislandi af ánægju vegna þess að það var eitthvað sem ÞÚ gerðir fyrir hann? Þú ert fæddur í þjónustuhlutverkið, en þú kannt ekkert á Excel, hugmyndir þínar eru frekar slappar og þér finnst þú bara ekkert sérstaklega spennandi dæmi. Ekki eins og „allir“ hinir að minnsta kosti.

Við erum öll fædd með einstaka eiginleika, hæfileika, styrkleika sem vinna stundum með okkur og stundum á móti okkur (oft kallaðir veikleikarnir okkar) og allt svo dásamlega mismunandi.

Það virðist vera einhvers konar blindur blettur í augum okkar flestra að trúa því staðfastlega að okkar náttúrulega vöggugjöf, hæfileikarnir, eiginleikarnir og styrkleikarnir okkar séu ekki nóg og í stað þess að vinna að því að nýta styrkleikana okkar verðum við upptekin við að búa til sögur í hausnum á okkur þess efnis að allir séu að gera það gott … nema þú? Er það kannski bara sagan þín?

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: