Nýtt útrásarævintýri í gegnum sæstreng ?

mbl

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Nýtt útrásarævintýri í gegnum sæstreng?

Hugmyndir um tengingu íslenska raforkukerfisins við meginland Evrópu komu fyrst fram fyrir um 60 árum. Hugmyndirnar fengu svo byr undir báða vængi þegar Hörður Arnarson tók við starfi forstjóra Landsvirkjunar. Hann hefur verið mjög einarður stuðningsmaður þess að leggja raforkusæstreng á milli Íslands og Bretlands. Það kemur því ekki á óvart að Landsvirkjun hafi lagt mikla „orku“ í skoðun á sæstrengsmálinu undanfarin 5-6 ár, án þess þó að upplýsa um neinar niðurstöður. Talsmenn sæstrengsins staðhæfa að hér gæti verið um að ræða mjög arðbæra framkvæmd, jafnvel þótt engir arðsemisútreikningar liggi enn fyrir.

Efasemdir almennings um þetta feiknarstóra verkefni verða hins vegar æ meira áberandi. Í vor kannaði Gallup viðhorf Íslendinga til raforkusæstrengsins. Niðurstöður þeirrar könnunar voru mjög afdráttarlausar gegn sæstrengnum. Sérstaklega voru landsmenn andvígir þessum áformum ef strengurinn kallaði á nýjar virkjunarframkvæmdir, eða 67% landsmanna.

Hvers vegna er fólk svona andvígt sæstrengnum?
Í fyrsta lagi er andstaðan mikil gagnvart nýjum, risavöxnum virkjanaframkvæmdum eins og kom skýrt fram í fyrrnefndri könnun. Sú andstaða er á rökum reist. Raforkan í stæstrenginn yrði nefnilega að koma frá nýjum virkjunum til þess að bresk stjórnvöld mættu lögum samkvæmt niðurgreiða þennan rándýra streng. Raunhæft væri að áætla að virkja þyrfti sem svarar tveimur Kárahnjúkavirkjunum, að teknu tilliti til orkutaps við flutning er næmi allri orkuframleiðslu Búðarhálsvirkjunar.

Í öðru lagi geldur fólk varhug við því að afhenda Bretum yfirráð yfir stórum hluta orkuauðlinda þjóðarinnar marga áratugi fram í tímann. Í þriðja lagi orkar mjög tvímælis að senda íslenska raforku óunna úr landi eins og hverja aðra hrávöru sem skapar engan virðisauka hér á landi.

Í fjórða lagi hafa rekstrarforsendur að baki sæstrengnum verið mjög óljósar og menn virðast almennt ekki vita hvort strengurinn verði arðbær eða ekki. Rétt er að taka það fram að mat á þjóðhagslegum áhrifum sæstrengsins var fyrr á árinu boðið út af Ríkiskaupum og fékk Straumur fjárfestingarbanki verkefnið sem nú er í vinnslu þeirra.

Samlíking við hrunið nærtæk
Í fimmta lagi er vel hugsanlegt að landsmenn tengi þá risaframkvæmd, sem lagning sæstrengs yrði, við bankahrunið og ófarirnar sem tengdust því. Stórkallalegar upphrópanir um að aukin arðsemi íslenska raforkukerfisins sé handan við hornið með sæstrengnum, minnir fólk kannski á árin fyrir hrun, þegar útrásarvíkingar sáu gróðatækifæri í hverju horni og hæddust að þeim sem vildu ekki taka þátt í uppklappi fífldjarfra hugmynda. Kannski heyrir fólkið í landinu ákveðinn samhljóm með útrásarstemningu bankanna og annarra draumóradrifinna fyrirtækja fyrir hrun og flokkar sæstrenginn þess vegna undir sömu útrásarhagfræði.

Síðast en ekki síst hefur það væntanlega mikil áhrif á neikvæða afstöðu almennings að orkuverð til neytenda og fyrirtækja í landinu mun hækka mjög ef af lagningu sæstrengs verður. Fylgjendur sæstrengsins hafa reynt að skauta fram hjá þessu atriði með því að halda því fram að það sé þá ríkisins að koma með mótvægisaðgerðir, t.d. með lækkun skatta. Þar er ekki á vísan að róa enda ríkir verulegt tregðulögmál þegar kemur að slíkum skattalækkunum.

Lykilspurningar sem þarf að svara
Er það trúlegt að Bretar hafi í hyggju að gera íslensk orkufyrirtæki rík með stórfelldum niðurgreiðslum á orku í marga áratugi, þegar spár gera ráð fyrir að orkuverð á mörkuðum haldist lágt svo langt sem séð verður?

Mun íslenska þjóðin nokkurn tíma samþykkja ígildi tveggja nýrra Kárahnjúkavirkjana?

Mestu skiptir að gegnsæi allra upplýsinga verði tryggt og komið verði í veg fyrir hvers kyns hagsmunaslagsíðu við mat á þjóðhagslegri arðsemi verkefnisins. Slíkt risaverkefni má ekki keyra áfram í reykfylltum bakherbergjum í trássi við þjóðarvilja.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: