Vitlaus fjármögnun Vaðlaheiðarganga?

Heimild:  visir

Guðmundur Karl Jónsson

Guðmundur Karl Jónsson

 

Október 2016

Vitlaus fjármögnun Vaðlaheiðarganga

Best væri að Kristján Lárus legði meiri áherslu á tvíbreið jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta. Mörg óvissuatriði tengd hugmyndinni um fjármögnun Vaðlaheiðarganga með innheimtu vegtolla á hvern bíl vekja spurningar um hvort þingmenn Norðausturkjördæmis verði síðar meir gerðir ómerkir orða sinna þegar allar tilraunir til að reka þetta rándýra samgöngumannvirki sem einkaframkvæmd mistakast.

Árangurslaust voru þingmenn fyrrverandi ríkisstjórnar spurðir að því hvort skynsamlegt sé að láta afleiðingarnar lenda á ríkissjóði og síðar skattgreiðendunum þegar meirihluti heimamanna í Norðausturkjördæmi viðurkennir þá staðreynd að alltof fáir bílar séu í umferð á Eyjafjarðarsvæðinu og í sveitunum austan Vaðlaheiðar til þess að 1.000 króna veggjald á hvert ökutæki geti staðið undir launum starfsmanna, afborgunum, viðhaldi og rekstri ganganna.

Engin svör fást þegar spurt er hvaða sanngirni felist í því að íslenskir skattgreiðendur skuli með stórauknum álögum gjalda fyrir þetta stórmennskubrjálæði Steingríms J. sem telur pólitískan glundroða, ringulreið, öryggis- og stjórnleysi skipta enn meira máli í stað þess að taka á atvinnumálum íbúanna við Skjálfandaflóa. Þessi framkoma jarðfræðingsins úr Þistilfirði eyðileggur allar forsendurnar sem tengjast arðsemismati Vaðlaheiðarganga. Af þessu stórmennskubrjálæði jarðfræðingsins verður löng saga þegar það sannast að félög í fámennum landshlutum ráða ekki við fjármögnun samgöngumannvirkja með innheimtu vegtolla á hvert ökutæki fari kostnaðurinn yfir 15 milljarða króna. Mörgum spurningum neitar fyrrverandi  sjávarútvegsráðherra að svara þegar það fréttist að meðalumferð ökutækja á sólarhring í Vaðlaheiðargöngum nær aldrei þeim heildarfjölda sem fer daglega í gegnum Hvalfjarðargöngin. Spurningin er hvenær Steingrímur J. og Oddný falla á reiknisprófinu þegar fyrirsögnin Vitlaus fjármögnun Vaðlaheiðarganga birtist á forsíðum dagblaðanna.

En hvert verður reikningurinn sendur? Fljótlega geta áhyggjufullar fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni spurt hvers vegna þeim sé refsað fyrir þjófnað óreiðumanna sem aldrei þurfa að svara til saka um leið og allar tilraunir til að fjármagna Vaðlaheiðargöng með 1.000 króna veggjaldi á hvern bíl renna út í sandinn.

Að viðlögðum drengskap lofar jarðfræðingurinn úr Þistilfirði því að rekstur jarðganganna undir heiðina skuli standa undir sér með innheimtu vegtolla þegar hann ítrekar andstöðu sína gegn Norðfjarðargöngum og tillögu Arnbjargar Sveinsdóttur um Fjarðarheiðargöng sem afgerandi meirihluti Alþingis samþykkti fyrr á síðasta ári. Sjálfur kemur hann aldrei virðulega fram gagnvart Austfirðingum, Sunnlendingum og Vestfirðingum.

Á síðasta ári komust ráðherraskipti í fráfarandi ríkisstjórn í fréttirnar sem vekja spurningar um hvort pólitísk hrossakaup hafi farið fram á bak við tjöldin um leið og jarðfræðingurinn barðist fyrir því að fjármögnun Vaðlaheiðarganga yrði troðið fram fyrir önnur þarfari verkefni á Vestfjörðum, Austurlandi og Suðurlandi. Það eru Dýrafjarðargöng, Norðfjarðargöng, Lónsheiðargöng, stutt veggöng undir Reynisfjall og undirbúningsrannsóknir á jarðgangagerð milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar.

Allar spár um að meðalumferð í veggöngunum milli Fnjóskadals og Eyjafjarðar verði jafnmikil og í Hvalfjarðargöngunum eru ófullnægjandi, mótsagnakenndar og ómarkvissar. Of mikil áhætta fylgir því að setja Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd þegar haft er í huga hvað meðalumferð ökutækja á sólarhring milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals er mikið minni en í Suðurkjördæmi, Hvalfjarðargöngum og á höfuðborgarsvæðinu.

Félög sem voru stofnuð í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum til að fjármagna þessi veggöng með veggjaldi eiga nú í erfiðleikum með að útvega fjármagn í þetta rándýra samgöngumannvirki. Fljótlega spyrja vonsviknir skattgreiðendur hvenær Vegagerðin muni festast í svikamyllu Vaðlaheiðarganga að undirlagi Steingríms J. og Oddnýjar G. Harðardóttur þegar allar tilraunir til að fjármagna þessa rándýru einkaframkvæmd með veggjaldi snúast upp í andhverfu sína.

Fyrir félög í fámennum landshlutum sem ráða ekki við svona dýrt samgöngumannvirki verða afleiðingarnar skelfilegar án þess að Steingrímur og Oddný taki það nærri sér. Ræður þeirra hafa verið skammir og tilefnislausar rangfærslur um samgöngumál Mið-Austurlands, Suðurlands og Vestfjarða eftir að Alþingi samþykkti fyrirhuguð Norðfjarðargöng 2009.

Fleira áhugavert: