Hvers vegna notum við ekki boltaða varmaskipta ?

Efasemdarmaður eins og ég tel að oft tökum við lausnir í lagnamálum sem koma að “utan” af því að aðrir geri það. Þá verða allir eins, það er svo þægilegt að þurfa ekki að eyða tíma í að hugsa.

Ég átti fróðlegt samtal við mann nýlega, þessi maður vann við málmtækni alla sína starfstíð. Hann sagði mér frá geislakerfi í sambýlishúsi þar sem hann býr og varminn er tekinn í gegnum varmaskipti, að sjálfsögðu heillóðaðan. Hann taldi að varmaskiptirinn væri farinn að daprast mjög enda fullyrti hann að líftími slíks varmakiptis væri ekki nema átta ár! Þá kom ég með mínar gömlu  röksemdir að ef þetta væri boltaður varmaskiptir væri hægt að hreinsa hann á nokkurra ára fresti. Hann taldi hreinsun vera jafn kostnaðarsama og nýr varmaskiptir og ég fór ekki lengra í mínum pælingum.

En stundum halda pælingarnar áfram, þær verða ekki svo auðveldlega lagðar til hliðar.

Þegar tengdur en nýr varmaskiptir er hann tandurhreinn og á ekki í neinum vandræðum með að skila því sem honum er ætlað og hann er gefinn upp fyrir.

En allir varmaskiptar taka fljótlega að daprast vegna ýmissa óhreininda og eftir tvö til þrjú ár hefur hann í rauninni “minnkað” , hann skilar ekki því sem lofað var.

heillóðaðir varmaskiptar

Heillóðaðir varmaskiptar

Og þessi rýrnun heldur áfram og ég er ekki í nokkrum vafa um að sá fróði viðmælandi minn hefði nokkuð til síns máls þegar hann sagði líftíma varmaskiptis átta ár. Ég get trúað því að það sé þó mismunandi eftir svæðum og því hvernig vatn er í gegnumstreyminu.

En svo kemur annað sjónarmið sem er nýtni nútímans. Við erum að vakna upp við það að mannkynið getur ekki haldið áfram að framleiða einnota hluti endalaust og sóa þar með dýrmætum efnum.

Ef við notuðum boltaða varmaskipta gætum við jafnvel notað sama varmaskiptinn áratugum saman, honum yrði ekki hent í brotajárn eftir átta ár.

Svo er einnig líklegt að ef þörf væri fyrir hreinsun slíkra gripa væru  ýmsir fagmenn búnir að koma sér upp tækjum og efnum til slíkrar hreinsunar.

Er þá ekki líklegt að hreinsunarkostnaður mundi lækka umtalsvert?

 

 

Heimild: Lagnafélag Íslands

Fleira áhugavert: