Gamlar skólplagnir í grunnum

mbl

 

 2007 – 21.maí

Gamlar skólplagnir í grunnum

Lagnafréttir                                                                                                                                                                   

Sigurður Grétar   Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

 

Gamlar skólplagnir í grunnum1

Húðun Á efri myndinni sést inn í rör, húðað með blöndu af polyester og glertrefjum, en á þeirri neðri sést slík húðun inn um hreinsilúgu á pottröri

Við erum að vakna upp við vondan draum. Húsin í Reykjavík og í eldri bæjum landsins eru mörg orðin 50 ára gömul eða jafnvel eldri. Það er sameiginlegt með næstum öllum þessum húsum að skólpkerfið í grunninum, undir gólfplötu kjallarans eða neðstu hæðar, er úr steinrörum. Vissulega finnast hús þar sem grunnskólprörin eru lögð úr varanlegra efni svo sem steypujárnsrörum, sem við í daglegu tali köllum pottrör, eða í einstaka tilfellum úr leirrörum. Ekki er nokkur vafi á að leirrörin endast best, jafnvel það sem við getum kallað von úr viti. Pottrörin endast vel en það kemur að því að ellin beygir þau einnig.

En steinrörin eru vandamálið.

Endurnýjun útheimtir rask

Þegar þau eru orðin yfir hálfrar aldar gömul er ekki nokkur vafi á að þau eru ekki á vetur setjandi, jafnvel ekki steinrör sem eru mun yngri. Á undanförnum árum hafi margir húseigendur orðið að láta endurnýja skólplagnir í grunnum húsa sinna, oft ekki fyrr en tilneyddir, jafnvel ekki fyrr en þeir sem búa í kjallara eða á neðstu hæð hafa orðið að flýja íbúð sína vegna ýmissa óboðinna gesta, vegna raka, sagga og ólyktar. Að endurnýja skólplagnir í grunni útheimtir oftast mikið rask, gólfplötu þarf að brjóta upp, leggja nýjar skólplagnir, steypa gólfplötu að nýja og setja þar yfir ný gólfefni eftir að steinsteypta platan hefur harðnað og þornað.

Á undanförnum árum hafa steinsteypt rör í götum verið endurnýjuð án þess að nokkru þurfi að raska á yfirborði. Það er gert með því að draga sokk úr plasti inn í gömlu rörin, þenja sokkinn út og láta hann harðna. Þá er rörið orðið sem nýtt plaströr með áratuga endingu. Það er ekki auðvelt að nota þessa aðferð við endurnýjun skólpröra undir gólfplötum vegna þess að þar eru margar greiningar sem verða að vera opnar áfram, þó mun þessi aðferð eitthvað hafa verið prófuð í grunnum.

Ný lagnakerfi steypt

En nú hefur sænska fyrirtækið Proline þróað nýja tækni til að klæða gamlar skólplagnir að innan. Nýjungin er sú að í stað þess að nota sokk úr plasti sem er dreginn inn í gömlu rörin er sprautað inn í þau efni sem sest innan á rörvegginn og harðnar síðan. Með þessari aðferð er tryggt að samfellt lag sest innan á gömlu rörin, bæði á beinar lagnir sem og beygjur og greiningar, það verður til nýtt heilsteypt lagnakerfi innan í því gamla.

Framgangsmátinn er í stuttu máli á þessa leið. Í fyrsta lagi eru gömlu rörin skoðuð og mynduð og ástand þeirra metið út frá þeirri skoðun. Í öðru lagi eru rörin hreinsuð vandlega með vatni með sniglum sem látnir eru fara um allt lagnakerfið, að því loknu eru rörin þurrkuð vandlega með heitu lofti. Í þriðja lagi er húðunarefninu, sem er plastefnið polyester, blandað með glertrefjum og sprautað innan í allt lagnakerfið. Þannig eru gömlu rörin notuð sem mót til að steypa nýtt lagnakerfi. Efninu er sprautað inn um hreinsilúgur og stúta eftir að hreinlætistæki hafa verið tekin úr sambandi. Plastefninu er sprautað í þremur umferðum, hvert lag látið harðna í klukkustund á milli. Í fjórða lagi er lagnakerfið skoðað eftir aðgerðina og myndað í hverjum krók og kima til að ganga úr skugga um að hvergi sé óhúðaður blettur. Ef allt er í lagi eru hreinlætistæki tengd aftur.

Mikil þörf á endurnýjun

Með þessari aðferð sparast mikið rask, gólfplötu þarf ekki að brjóta og endursteypa, íbúar í viðkomandi rými þurfa ekki einu sinni að flytja út, aðeins að þola það rask sem verður meðan á framkvæmd stendur.

Þessi aðferð er meira og meira notuð víða um Skandinavíu en hefur ekki enn verið notuð hérlendis svo vitað sé.

En það er orðin nánast æpandi þörf á endurnýjun skólplagna undir gólfplötum húsa sem eru 40 ára og eldri. Það væri vel þess virði að kanna nánar hvort þessi aðferð við endurnýjun gamalla skólplagna úr steinrörum, sem lýst hefur verið að framan, er ekki eitthvað sem gæti orðið notadrjúgt hérlendis. Þó að þessi tækni spari ef til vill ekki mikla fjármuni miðað við aðrar hefðbundnar aðferðir er ekki vafi á að hún er ekki eins íþyngjandi þeim sem búa ofan á gömlu lögnunum.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: