Stækkun Búrfellsvirkjunar

verkís

Búrfellsvirkjun

Búrfellsvirkjun

Verkís átti lægsta tilboðið í útboði Landsvirkjunar um ráðgjafaþjónustu fyrir fyrirhugaða stækkun Búrfellsvirkjunar en fjórir aðilar skiluðu inn tilboðum í verkið. Landsvirkjun ákvað að taka tilboði Verkís og hefur þegar verið skrifað undir ráðgjafasamning.

Með stækkun Búrfellsvirkjunar verður nýting rennslis Þjórsár við Búrfell aukin umtalsvert, en í dag renna að jafnaði um 410 GWst af orku framhjá stöðinni á ári hverju.

Stöðvarhús neðanjarðar
Verkefnið felst í gerð útboðsgagna vegna framkvæmda við stækkun Búrfellsvirkjunar ásamt lokahönnun og aðstoð á byggingartíma. Áformað er að staðsetja nýtt stöðvarhús neðanjarðar í Sámsstaðaklifi sem mun samnýta inntakslón núverandi virkjunar (Bjarnalón). Umfang ráðgjafaþjónustunnar er áætlað um 60.000 vinnustundir en framkvæmdakostnaður verkefnisins er áætlaður um 14 milljarðar króna.

Orkugeta eykst um allt að 300 GWst á ári
Uppsett afl stækkunarinnar verður 100 MW með einni vél. Stækkunin mun nýta sama fall í Þjórsá og þær sex vélar sem eru í núverandi Búrfellsstöð. Í kjölfar stækkunar mun orkugeta virkjunarinnar aukast um allt að 300 GWst á ári en stefnt er að gangsetningu fyrri hluta árs 2018.

 

landsvirkjun

Um virkjunarkostinn

Utan rammaáætlunar

Fyrirhuguð stækkun Búrfellsvirkjunar mun hámarka nýtingu rennslis Þjórsár við Búrfell. Núverandi nýting rennslisorku við Búrfellsstöð er um 86% og talið er að um 410 GWst renni að jafnaði fram hjá stöðinni á ári hverju.

Ný stöð verður staðsett neðanjarðar í Sámsstaðaklifi en vatn til stækkunar virkjunarinnar verður tekið úr inntakslóni núverandi Búrfellsvirkjunar (Bjarnalón). Lónið auk veitumannvirkja eru nú þegar til staðar og hluti af núverandi Búrfellsvirkjun. Úr inntakslóni verður grafinn um 370 m langur aðrennslisskurður fram undir brún Sámsstaðaklifs að stöðvarinntaki. Frá stöðvarinntaki fellur vatnið niður um 155 m löng fallgöng að stöðvarhúsi og þaðan er vatninu síðan veitt um 440 m löng frárennslisgöng út í 2,2 km langan frárennslisskurð sem leiðir það út í Fossá um 1 km neðan við núverandi stöð.

Áformað er að uppsett afl nýrrar stöðvar verði 100 MW með einni vél en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW. Með stækkun Búrfellsvirkjunar má auka orkugetu raforkukerfisins um allt að 300 GWst á ári. Kemur það til bæði vegna aukinnar nýtingar á rennsli og vegna minnkaðra falltapa í núverandi stöð þegar álag er fært af henni yfir á nýju stöðina.

 

Stækkun Búrfellsvirkjunar

Staðsetning – smella á mynd til að stækka

Helstu kennistærðir

Vatnasvið með veitum (km²)  6.400
Lengd aðrennslisskurða (m)    370
Lengd fallpípu (m)    155
Lengd frárennslisskurða (m)   2220
Virkjað fall (m)   119,2
Virkjað rennsli (m3/s)     92
Afl (MW)    100
Orkugeta (GWh/ári)  300

 

Fleira áhugavert: