Risa höfn í Finnafirði – Rannsóknir sagðar lofa góðu

visir

Samstarfið handsalað í Ráðherrabústaðnum í fyrra. Sveitarstjóri Vopnafjarðar, oddviti Langanesbyggðar, forsætisráðherra, iðnaðarráðherra og framkvæmdastjóri Bremenports sjást á myndinni.

Samstarfið handsalað í Ráðherrabústaðnum í fyrra. Sveitarstjóri Vopnafjarðar, oddviti Langanesbyggðar, forsætisráðherra, iðnaðarráðherra og framkvæmdastjóri Bremenports sjást á myndinni. STÖÐ 2/BALDUR HRAFNKELL JÓNSSON.

Undirbúningsrannsóknir eru hafnar í Finnafirði við Langanes vegna stórskipahafnar sem ætlað er að þjóna norðurslóðum. Fyrstu niðurstöður liggja þegar fyrir og eru sagðar lofa góðu.

Upphaflega voru það sveitarstjórnarmenn á Bakkafirði sem komu stórskipahöfn í Gunnólfsvík fyrst inn á aðalskipulag fyrir áratug, beinlínis með norðurslóðasiglingar og olíuleit í huga. Hreyfing komst svo á málið fyrir alvöru í maímánuði í fyrra þegar samstarfssamningur var undirritaður í Ráðherrabústaðnum við eitt stærsta hafnafyrirtæki Evrópu, Bremenports, um að kosta mörghundruð milljóna króna undirbúningsvinnu. Forsætisráðherra og iðnaðarráðherra vottuðu stuðning ríkisstjórnarinnar með nærveru sinni.

Rannsóknirnar hófust raunar strax í fyrrasumar, fyrst á lífríki svæðisins, en í síðasta mánuði komu svo verktakar með tvær skurðgröfur og flutningabíla til að grafa rannsóknarholur og setja upp veðurmælistöðvar á fyrirhuguðu hafnarsvæði. Verkfræðistofan Efla hefur umsjón með rannsóknunum fyrir hönd Bremenports og Langanesbyggðar.
Undirstöðum veðurmælingastöðvar komið fyrir. Gunnólfsvíkurfjall í baksýn.

Undirstöðum veðurmælingastöðvar komið fyrir. Gunnólfsvíkurfjall í baksýn. MYND/FRIÐRIKA MARTEINSDÓTTIR, EFLU.

Fljótlega verða sett upp öldumælinga- og straummælingadufl í firðinum og utan við hann. Ennfremur er búið að stilla upp á kortum hvernig hafnarmannvirkjum yrði komið fyrir. Friðrika Marteinsdóttir, jarðfræðingur Eflu, tók ljósmyndir af jarðfræðirannsóknunum sem sýndar voru í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá Verkfræðistofunni Eflu liggja fyrstu niðurstöður rannsókna fyrir og lofa góðu. Benda þær til þess að kostnaður við uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði sé innan eðlilegra marka við slíkar framkvæmdir. Áætlað er að undirbúningsrannsóknum fyrir hugsanlegt umhverfismat geti verið lokið eftir þrjú til fjögur ár.

 

Hafnarmannvirki finnafirði

Höfnin er áformuð í botni Finnafjarðar við Bakkaflóa í krikanum sunnan við Langanes. Næstu þéttbýli eru Þórshöfn og Bakkafjörður.

Höfnin er áformuð í botni Finnafjarðar við Bakkaflóa í krikanum sunnan við Langanes. Næstu þéttbýli eru Þórshöfn og Bakkafjörður.

Heimild:Vísir

 

 

Fleira áhugavert: