Geislavirkur úrgangur

visir

Febrúar 2015

Sellafield1

Þrátt fyrir skaðsemi sína er geislun og geislavirk efni hluti af náttúru okkar. Áhrifa 520 tilrauna með kjarnavopn gætir enn. VÍSIR/GETTY

Með því að kljúfa atómið beisluðum við krafta sólarinnar. Við færðum heiminum kjarnavopn. Síðar rafmagn með kjarnorku. Í staðinn gáfum við jörðinni sýkt kýli sem komandi kynslóðir munu kroppa í til eilífðar. Slík er náttúra geislaúrgangs.

OECD-löndin losa árlega um 300 milljónir tonna af eiturefnaúrgangi. Geislavirkur úrgangur, frá kjarnahrörnun og kjarnasundrun, er agnarsmár hluti af þessu eða 81.000 m3 á ári. Ef við gefum okkur það að Bandaríkin noti kjarnorku alfarið til að framleiða rafmagn og dreifum rafmagnsnotkun jafnt á milli 324 milljóna Bandaríkjamanna, þá ber hver borgari ábyrgð á 40 grömmum af geislavirkum úrgangi. Ef við snúum dæminu við og gefum okkur það að Bandaríkin noti alfarið kol og jarðgas þá getum áætlað rúmlega 10.000 kíló af koltvísýringi á hvern Bandaríkjamann.

Syndir feðranna
Frá iðnbyltingunni höfum við dælt gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, áhrif þessa birtast nú í hröðum loftslagsbreytingum. Andrúmsloftið man losun fyrri kynslóða. Öndvert við koldíoxíð þá höfum við alltaf gert okkur grein fyrir að aukaafurð kjarnorkutilrauna er eitruð. Verkfræðingar DuPont, sem hönnuðu kjarnorkuver Manhattan-verkefnisins, sögðu geislavirkan úrgang vera „ofurmannskemmandi“.

Hingað til hefur okkur ekki tekist að þróa hentuga aðferð við að geyma geislavirkan úrgang á háu stigi. – VÍSIR/GETTY

Þrátt fyrir þetta hömuðust menn við að framleiða plúton fyrir Trinity-tilraunina árið 1945, þegar mannkyn sá bjarma kjarnorkusprengingar í fyrsta skipti. Það sem vísindamennirnir gerðu við úrganginn svipar nokkuð til þess sem við gerum enn í dag. Milljónum lítra af geislavirkum úrgangi var skóflað í næsta skurð, eða svo gott sem. Hættulegasti úrgangurinn var geymdur í neðansjávargeymum. Þetta gerðum við í nokkra áratugi en var á endanum bannað á áttunda áratugnum.

Hvað skal gera?
Framleiðsla rafmagns með kjarnorku hófst fyrir alvöru stuttu eftir kjarnorkukapphlaupið. Árið 2012 sáu 437 kjarnorkuver í 31 landi fyrir 5,7% af heildarorkuþörf – 13% af rafmagni heimsins. Í dag stöndum við frammi fyrir vandamálinu um varanlega og örugga förgun. Hingað til hefur okkur ekki tekist að þróa hentuga aðferð við að geyma geislavirkan úrgang á háu stigi. Við leitum enn leiða til að farga honum — að henda honum í Karahaf, eins og gert var, er ótækt. Þangað til að raunhæf lausn lítur dagsins ljós geymum við úrganginn þannig að sem minnstar líkur eru á að hann berist út í umhverfið. Hér erum við að tala um hundruð ára. Það eru þó margar hugmyndir á lofti. Sólin myndi vinna vel úr honum en þið getið ímyndað ykkur hvað gerist þegar eldflaug springur yfir jörðinni með nokkur tonn af geislavirkum úrgangi um borð. Hugsið Mad Max.

Þannig safnast úrgangurinn saman. Lægstbjóðandi fær það verkefnið að sjá um úrganginn. Þetta hefur ekki gefið góða raun. Óhugnanlega mörg tilfelli hafa orðið þegar geislavirkur úrgangur lekur út í grunnvatn. Járntunnur tærast, steinsteypa grotnar.

Þegar við ræðum um geislun í þessu samhengi þá er átt við jónandi geislun. Áhrif hennar á líkamann eru hrikaleg. Þetta er orkumikil geislun sem skellur á sameindum líkamans og tætir erfðaefnið í sundur. Frumurnar hætta að sinna hlutverki. Þær gleyma jafnvel að deyja (krabbamein).

Sellafield ógnar
Kjarnorkuendurvinnsluverið Sellafield við Írlandshaf kristallar alla þessa þætti. Einkaaðilar sem áttu að sjá um förgun voru reknir á dögunum og Nuclear Decommissioning Authority tók við. Í Sellafield eru tvær af hættulegustu birgðageymslum veraldar, þar sem geislavirkur úrgangur frá fyrstu árum kjarnorkualdarinnar er geymdur í niðurníddum byggingum.

Sellafield

Óttast er að milljón rúmmetrar af geislavirkum úrgangi leki frá Sellafield á næstu öldum. – VÍSIR/GETTY

Bresk yfirvöld gera ráð fyrir að hreinsunarvinnu ljúki í Sellafield árið 2120. Hreinsunin kostar 379 milljarða króna á ári. Hættulegustu úrgangslindirnar verða hreinar árið 2030. Á sama tíma hefur breska umhverfisstofnunin lýst yfir verulegum áhyggjum af uppsöfnuðum úrgangi við Driggs LLWR-geymslustöðina í Cumbria. Hætta er á að milljón rúmmetrar af lággeislavirkum úrgangi leki út í Írlandshaf á næstu öldum með hækkandi sjávarstöðu.

Í skýrslu umhverfisráðuneytisins frá árinu 2001 um aðgerðaráætlun til verndar lífríki hafsins er kallað eftir frekari rannsóknum á geislavirku samsætunni teknetín-99 (Tc-99) sem á uppruna sinn í Sellafield. Mælingar við norðvesturströnd Íslands gáfu til kynna að Tc-99 væri þar í nokkru magni, kæmi hingað með Austur-Grænlandsstraumnum og þynntist þúsundfalt á leiðinni. Frá aldamótum hefur Sellafield losað 140 kíló af Tc-99 á ári út í Írlandshaf.

Sigurður M. Magnússon

Sigurður M. Magnússon

Lítil áhrif
„Geislavarnir ríkisins hafa gert mælingar á geislavirkum efnum í fiski og hafsvæðunum umhverfis Ísland í mörg ár,“ segir Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins. „Mælingarnar staðfesta að hér er mjög lítið af geislavirkum efnum.“

Þrátt fyrir skaðsemi sína er geislun og geislavirk efni hluti af náttúru okkar. Áhrifa 520 tilrauna með kjarnavopn gætir enn og mun gæta næstu árþúsundin. Sigurður bendir á að ef geislavirkur úrgangur berst frá Sellafield þá muni það auka þá geislun sem þegar er fyrir hendi þar. Sellafield sé ekki áhyggjuefni fyrir Ísland. „Hugsanleg áhrif á fólk og lífríki ráðast af mörgum þáttum svo sem hvaða efni er um að ræða, á hvaða formi þau eru og í hversu miklu magni.“

 

Sellafield is located in Cumbria

Sellafield Cumbria – Wikipedia

 

Heimild: Vísir+Wikipedia

Fleira áhugavert: