Landsvirkjun – Ísland verði hráefnisland

bloggid

Ívar Pálsson

Ívar Pálsson Viðskiptafræðingur

Löngu er orðið tímabært að ríkisstjórnin láti Landsvirkjun setja eigendurna, þegnana í forgang í stað þess að hampa raforkusölu til útlanda eða að hækka raforkuverð ótæpilega, sem kemur verst niður á minni framleiðendum og hinum almenna neytanda. Þessi gróðastefna almannaþjónustu- fyrirtækis dregur úr samkeppnisfærni og frumkvæði landans, þar sem tækifærin eru víða hér með aðgang að öflugri og skilvirkri sameiginlegri raforkuframleiðslu í bakgarðinum.

Ný stjórn breytti engu

Óskiljanlegt er hvers vegna engin breyting varð á þessari stefnu Landsvirkjunar í að gera Ísland að skattpíndu hráefnislandi við það að skipt var um fólk í stjórninni þegar nýja ríkisstjórnin tók við völdum. Hér ættu neytendur og minni framleiðendur að njóta þess að hagkvæmni stærðarinnar í virkjunum og stórframleiðslu hafi fært okkur enn meiri möguleika en áður. Rafbílavæðing yrði líka enn auðveldari.

Óheillaþróun

Engin ástæða er til þess að hækka raforkuverðið, enda stefnir í methraða í því að greiða niður skuldir Landsvirkjunar til skuldleysis innan fárra ára. Mikill arður fyrirtækisins virðist einungis færa því meiri völd til þess að fóstra draumana um hráefnislandið Ísland á kostnað okkar þegnanna. Þessi ríkisstjórn hefur ennþá tvö ár til þess að snúa þessari óheillaþróun við.

Heimild:blogg.is

Fleira áhugavert: