Norðfjarðargöng – Rafstrengur til að tryggja örugga raforkuflutninga til Neskaupstaðar

Rúv

Norðfjarðargögng

Mynd: Hnit – Ófeigur Örn Ófeigson – Í Norðfjarðargöngum

Háspennustrengur verður ekki lagður í Norðfjarðargöng fyrst um sinn og er ekki á áætlun Landsnets næstu þrjú árin. Göngin verða hinsvegar tekin í notkun eftir tvö ár. Forstjóri Landsnets segir aðrar framkvæmdir í forgangi til að byggja upp dreifkerfið á Austurlandi.

 

Rafmagnið fór á versta tíma

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð sendu Landsneti bréf í sumar þar sem skorað var á fyrirtækið að nýta tækifærið meðan unnið væri í Norðfjarðargöngum til að leggja háspennustreng um göngin. Gera loftlínu yfir Oddsskarð þar með að varaleið og tryggja öruggari rafmagnsflutning til Neskaupstaðar. Í bréfinu er bent á að í fyrra hafi truflanir orðið á háannatíma í hrognatöku hjá Síldarvinnslunni.

Jón Már Jónsson

Jón Már Jónsson

„Í slæmu veðri sló loftlínum saman og við misstum út verksmiðjurnar. Þetta var á dýrmætasta tímanum á loðnuvertíðinni og það hefði geta orðið stórtjón en það slapp fyrir horn vegna þess að menn náðu að setja dísilvélar í gang,“ segir Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Hann nefnir sem dæmi að á loðnuvertíð noti Neskaupstaður svipað rafmagn og allur vestfjarðakjálkinn. Í hrognatöku séu mikil verðmæti unnin á stuttum tíma og því mikilvægt að afhendingaröryggi raforku sé sem best.
Vilja auka flutningsgetu áður en þeir koma á varaleið

Guðmundur Ingi Ásmundsson

Guðmundar Inga Ásmundssonar

Í svarbréfi Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, til Fjarðabyggðar kemur fram að fyrirtækið telji brýnna að byrja á að auka flutningsgetuna til Neskaupstaðar og Eskifjarðar með því að losa um flöskuhálsa í kerfinu. „Það eru ýmsar framkvæmdir á Austfjörðum sem eru í hærri forgangi heldur en þessi framkvæmd. Meðal annars til að fullnýta núverandi línu til Neskaupstaðar og styrkja tenginguna inn til Eskifjarðar. Það gengur út á að klára að spennuhækka hringinn sem kemur frá Egilsstöðum niður til Eskifjarðar, Reyðarfjarðar og upp á Hryggstekk. Við erum búnir að spennuhækka niður á Reyðarfjörð og næstu verkefni eru að skipta um tengienda  á Eskifirði til að auka flutningsgetuna. Í framhaldinu þarf að stækka tengivirki á Eskifirði. Síðan þurfum við líka að skipta um strengbúta í núverandi Norðfjarðarlínu til að auka flutningsmagnið inn á svæðið,“ segir Guðmundur Ingi.
Strengurinn á dagskrá síðar

Hann bendir á að þó háspennustrengur verði ekki lagður um Norðfjarðargöng strax verði komið fyrir brunnum og tómu röri í göngunum og svo búið um hnúta að auðvelt verði að draga streng í rörið án þess að það trufli umferð um göngin. Hann tekur undir að æskilegt sé til tvöfalda línuna með nýjum streng um Norðfjarðarargöng. „Við erum byrjaðir að undirbúa línu númer tvö til Norðfjarðar en þurfum fyrst að vinna verkefnin á bakvið,“ segir Guðmundur Ingi.f

Línan liggur í meira en 600 metra hæð

Páll Björgvin Guðmundsson

Páll Björgvin Guðmundsson

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir í samtali við fréttastofu að bæjaryfirvöld telji mikilvægt að tryggja örugga raforkuflutninga til Neskaupstaðar sem fyrst. Hann bendir á að háspennustrengur um Norðfjarðargöng sé ekki á þriggja ára áætlun Landsnets og reyndar gæti orðið mun lengri tími en þrjú ár þangað til ákveðið yrði að ráðast í að tryggja hringtengingu til Neskaupstaðar.

„Þegar verið er að byggja jarðgöng fyrir á annan tug milljarða þá finnst okkur eðlilegt að menn klári að tryggja nauðsynlega innviði sem þessa í leiðinni,“ segir Páll Björgvin og bendir á að raflínan til Norðfjarðar fari upp í meira en 600 metra hæð í Oddsskarði og því sé nauðsynlegt að tryggja varleið.

Verktakar í Norðfjarðargöngum hafa síðustu vikur þurft að styrkja göngin með járnbentum steypubogum.

Verktakar í Norðfjarðargöngum hafa síðustu vikur þurft að styrkja göngin með járnbentum steypubogum. MYND/ÓFEIGUR ÖRN ÓFEIGSSON/HNIT

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *