Ný stofnun á sviði menntamála tekur til starfa

visir

Arnór Guðmundsson

Arnór Guðmundsson forstjóra Menntastofnunar

Markmið okkar er að vinna að framförum í menntun á Íslandi og vinna að betri gæðum skólastarfs,“ segir Arnór Guðmundsson, forstjóri nýrrar stjórnsýslustofnunar á sviði menntamála, Menntamálastofnunar.

Stofnunin hefur tekið til starfa og varð formlega til með lögum sem sett voru í byrjun júlí á þessu ári. „Stofnunin tekur þó ekki að fullu til starfa fyrr en 1. október,“ segir Arnór.
Stofnunin sinnir þeim verkefnum sem Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun hafa sinnt hingað til auk fleiri verkefna sem flutt verða frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til hennar.

„Ég held að ávinningurinn sé sá að stofnunin er nú stærri og öflugri,“ segir Arnór og bætir við að hlutverk stofnunarinnar sé víðtækt. „Hún mun sjá um námsmat og að meta gæði í skólum landsins. Sérfræðingar hjá okkur heimsækja skólana og gera úttektir. Jafnframt mun stofnunin greina menntakerfið og kanna þannig hvernig það standi í samanburði við önnur lönd. Auk þess sér stofnunin um mál er lúta að velferð nemenda, til dæmis um aðgerðir gegn einelti.“
Arnór sér fyrir sér breytingar á námsmati. „Væntanlega breytist matið með tímanum. Ég sé fram á sveigjanlegra mat sem yrði þá með rafrænum prófum sem eru einstaklingsmiðaðri.“

Heimild: Vísir

 

Fleira áhugavert:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *