Gríðarlegar fjárfestingar í stóriðju

Rúv

 

Mynd með færslu

Kíslverksmiðjan í Helguvík – Mynd: RUV

Tvöhundruð og tuttugu milljarða fjárfesting í stóriðjuverkefnum er hafin eða hefst á næstu mánuðum. Að minnsta kosti fimmtán hundruð iðnaðarmenn þarf til verka.
Farið er að bera á þenslu og ýmsum hættumerkjum, meðal annars í byggingariðnaði, sögðu bæði Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor, og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í fréttum RÚV fyrir helgi. Mikilvægt sé að endurtaka ekki hagstjórnarmistök áranna fyrir hrun.

 

Framkvæmdir hafnar við tvö kísilver

Mikil fjárfesting er ýmist hafin eða framundan í uppbyggingu stóriðju og fjöldi iðnaðarmanna mun starfa við hana. Í Helguvík er verið að reisa kísilver United Silicon. Það er 12 milljarða króna fjárfesting í fyrsta áfanga. Þar eru nokkrir tugir iðnaðarmanna að störfum en þeim fjölgar með haustinu og verða brátt 150 en framkvæmdum á að ljúka á fyrri hluta næsta árs, þegar framleiðslan hefst.Fyrr í þessum mánuði hófust framkvæmdir við fyrri áfanga kísilvers PCC á Bakka við Húsavík. Það er um 40 milljarða króna fjárfesting. Allt að 400 manns munu starfa við framkvæmdirnar í haust en stefnt er að því að framleiðsla geti hafist í árslok 2017. Nokkrum milljörðum verður að auki varið í uppbyggingu innviða á svæðinu.

 

Framkvæmdir gætu hafist við tvö kísilver á næstu mánuðum

Snemma á næsta ári er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga. Það er 80 til 90 milljarða fjárfesting. Samið hefur verið við danska verktakafyrirtækið MT Höjgaard um að reisa verksmiðjuna en 200-300 iðnaðarmenn verða þar að störfum. Verksmiðjan á að taka til starfa 2018.Við þessar þrjár verksmiðjur gæti bæst kísilver Thorsil í Helguvík. Orka til þeirrar verksmiðju hefur þó ekki verið tryggð en forstjóri Landsvirkjunar sagðist í viðtali snemma á þessu ári vonast til að gengið yrði frá raforkusamningum við Thorsil á næstu mánuðum. Verði af þessum áformum er það 38 milljarða fjárfesting í fyrri áfanga. 400 manns myndu vinna við framkvæmdirnar, sem gætu hafist innan fárra mánaða.

 

Nokkrar virkjanir á teikniborðinu

Tryggja þarf þessum verksmiðjum orku og því eru framkvæmdir hafnar við jarðvarmavirkjun á Þeistareikjum. Þar hafa nokkrir tugir erlendra iðnaðarmanna verið að störfum undanfarið en íslenskir hafa ekki verið á lausu. Hátt í 200 manns vinna á svæðinu þegar mest verður á þessu ári og því næsta en orkuframleiðsla hefst sumarið 2017. Fjárfestingin nemur allt að 24 milljörðum króna.

Á fyrri hluta næsta árs er svo gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við stækkun Búrfellsvirkjunar en það er 14 milljarða fjárfesting og framkvæmdir við Hvammsvirkjun gætu hafist á næsta ári. Ekki hefur verið birt kostnaðarmat fyrir hana.

Loks má telja að framkvæmdir við suðurnesjalínur hefjast senn en kostnaður við þær nemur um 2,5 milljörðum. Þá eru ótaldar breytingar á eldri línum en kostnaður við þær nemur 5 milljörðum.

 

 

Heimild/Mynd : RUV

Fleira áhugavert:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *